144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

um fundarstjórn.

[11:47]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ætlaði einmitt að ræða um störf þingsins. Ég tek undir með hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni. Við erum ekki að biðja um að losna við framsóknarmenn úr þeim lið, og ég harma það mjög ef framsóknarmönnum líður illa hér í þinghúsinu. En það er ekki okkur að kenna, (Gripið fram í.) það er samfélagið úti sem er að kvarta yfir þeim en ekki við.

Þegar fundir byrja hálfníu á morgnana þarf ég að leggja af stað frá Akranesi um tuttugu mínútur í átta. Það verður þá að setja í samgönguáætlun að maður eigi möguleika á að stoppa á leiðinni til að senda skilaboð nema maður noti þau brögð að vera með klukkuna á kerfinu.

Við erum öll sammála um að við viljum gjarnan komast að þarna. Við viljum líka gjarnan fá meiri umræðu í þinginu um ákveðin mál. Kannski ættum við að taka upp ákveðin mál og ræða þau sérstaklega í opinni umræðu innan ákveðins tímaramma. Okkur vantar umræðu um mörg mál.

Það merkilega er að þegar við tökum mál til langrar umræðu, eins og gerst hefur í nokkrum málum undanfarið, þá hafa þau alltaf batnað. Fram hefur komið fullt af ábendingum, hugmyndum og lagfæringum, vegna þess að allir þingmenn urðu að skoða málin. Við höfum í sumum tilfellum staðið frammi fyrir því að segja: Guð hjálpi mér, er verið að fara með þetta í gegn? af því að maður hefur ekki tækifæri til að skoða allt sem er að gerast í öllum nefndum.

Ég bið hæstv. forseta um að taka þetta til skoðunar.