144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

um fundarstjórn.

[11:57]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Ef það mætti verða til að greiða fyrir þessari umræðu um störf þingsins vill forseti segja að það er sjálfsagt mál að við tökum þetta enn og aftur fyrir á vettvangi forsætisnefndar, og þess vegna með þingflokksformönnum, til þess að reyna að finna betra form á þessum dagskrárlið, Störf þingsins, sem er mikilvægur dagskrárliður að mati forseta.

Oft hafa komið fram ýmsar ábendingar. Við höfum reynt að bregðast við þeim. Þetta er það fyrirkomulag sem við komum okkur saman um á sínum tíma að væri það skásta sem við gætum fundið. Ef við getum fundið betri leiðir til að tryggja að þingmenn geti tekið þátt í þessari umræðu í eins miklum mæli og hægt er, miðað við það að þingsköpin takmarka þetta við hálftíma í hvert skipti, þá verður forseti að sjálfsögðu fyrstur manna til að fagna því.

Forseta þótti það að vísu svolítið sérkennilegt að það skyldi koma frá þingmanni Pírata að aftengja tæknina og tölvurnar í þessu sambandi en lengi má mennina reyna og kannski er það handvirka kerfi sem forseti kann miklu betur á en það tölvutæka þrátt fyrir allt það besta.

Þetta skulum við bara reyna að ræða saman um í rólegheitunum á þessum vettvangi forsætisnefndar og þingflokksformanna í stað þess að við séum að hefja hér heiftarumræður um þetta mál, sem hlýtur bara að geta orðið úrlausnarefni fyrir okkur. Kannski ætti forseti að efna til einhvers konar áskorunar til þingmanna um að koma með góðar hugmyndir í púkkið og hafa þetta þá lýðræðislegt, gagnsætt og opið, eins og mikið tíðkast að tala um nú um þessar mundir.