144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

mælendaskrá í Störfum þingsins, afgreiðsla fjárlaganefndar á frv. um opinber fjármál.

[11:59]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Gamall kunningi okkar ýmissa hér á þinginu, Þráinn Bertelsson, er orðhagur og frjór og kallaði þennan dagskrárlið einmitt hálftíma hálfvitanna. Það var kannski ekki vegna þess að þeir væru vitgrannir sem tóku til máls undir þessum lið heldur þótti honum þessi liður vera illa skipulagður og ekki mikil samfella í honum. Það er auðvitað þannig að þingmenn þurfa að hafa tækifæri til að taka upp mál sem þeim líkar eða ræða um störf þingsins sem stundum er gert en þegar einn þingflokkur sækir þannig í þennan lið að hann raðar sjálfum sér upp á nánast hverjum degi þá verður heldur þyngra fyrir fæti fyrir aðra að koma í þetta.

Takmörkuð auðlind þýðir kvóti sem forseti kannast ákaflega vel við, það fyrirbæri, en auðvitað er hægt að ímynda sér það að taka upp nýjan dagskrárlið sem héti Morgunbænir framsóknarmanna. Þá mundi þjóðin sannarlega hlusta.