144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[12:10]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég held að ég verði að benda hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur á að nafnið lagabætir er frátekið. Það var Noregskonungur, Magnús að nafni, sem hefur það í sögunni. Svo er það þannig að það sem einn telur bót telur annar ekki endilega vera bót. Það er ekki í valdi einstakra þingmanna að kveða upp úrskurð um það hvað séu lagabætur og hvað ekki.

Ég tel aðalkostinn við þetta frumvarp vera hvað það breytir litlu í núgildandi stjórnarráðslögum sem eru að stofni til mjög góð. Það hafa komið fram mjög gildar athugasemdir og rök fyrir því að skoða nokkur ákvæði þessa frumvarps betur og ég fagna því að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ætlar að gera það og að framsögumaður meiri hlutans, hv. þm. Brynjar Níelsson, fyrrverandi formaður Lögmannafélagsins, hefur tekið vel í þá bón.