144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[12:16]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Athygli okkar þingmanna var vakin á því sem nú er verið að breyta strax þegar málið var lagt fram. Ég vakti athygli á því meðal þeirra sem komu að því að gera þessa breytingu frá ráðuneytinu og ég er mjög ánægð með að meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar ákvað að hlusta á tillögu bæði frá IMMI-stofnuninni sem og öðrum þingmönnum því að augljóst var að tilætlun laganna mundi ekki ná fram að ganga ef þessu yrði ekki breytt.

Ég vil jafnframt vekja athygli á því hversu oft það er sem eitt orð getur skipt svo miklu máli. Þess vegna er svo brýnt að við förum ítarlega yfir lagasetningu á Alþingi og hleypum ekki málum í gegn án þess að farið sé ítarlega yfir þau málefni. Eina ástæðan fyrir því að við tókum sérstaklega eftir þessu er að þetta er mál sem við höfum sérstakan fókus á. Ég legg til að við gefum okkur betri tíma til að fara yfir málefni en oft er og sér í lagi á þessum dögum þingsins þegar á að taka hér í gegn um það bil 70 mál.