144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[12:39]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er svo sem af nógu að taka og við munum örugglega ræða þessa ríkisfjármálaáætlun vel. Ég geri ráð fyrir að hv. formaður fjárlaganefndar komi í fleiri ræður, en fyrst vil ég spyrja hv. þingmann um þá áætlun sem hún leggur til að verði samþykkt hér óbreytt. Hv. þingmaður minntist á kjarasamningana og við vitum hvernig þeir hafa lagst fyrir hluta launþega. Nú stendur yfir kjaradeila við BHM, en í ríkisfjármálaáætluninni er reiknað með 2% launahækkunum umfram verðbólgu hjá ríkisstarfsmönnum á ári út áætlunartímabilið. Sennilegar verður það hærri prósenta ef að líkum lætur ef við tökum mið af þeim kjarasamningum sem búið er að gera. Hins vegar er gert ráð fyrir aðeins 1% hækkun á bótum almannatrygginga. Þarna sýnist mér, herra forseti, að verið sé að leggja til að Alþingi samþykki að brjóta lögin eða fara gegn 69. gr. laga um almannatryggingar, að þarna sé verið að draga í sundur með þeim sem þurfa að reiða sig á bætur og öðrum í samfélaginu og auka á ójöfnuð.

Ég spyr hv. þingmann hvort hugsanlega geti verið að þarna sé um mistök að ræða þar sem í tillögum ríkisfjármálaáætlunar er beinlínis gert ráð fyrir að brjóta lög vegna þess að samkvæmt 69. gr. á ákvörðun bótanna að taka mið af launaþróun en þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.