144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[12:46]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það vekur athygli þegar maður fer yfir nefndarálit meiri hlutans að það er í rauninni eins og lítill útdráttur úr þingsályktunartillögunni. Hér er engin gagnrýni og ég velti fyrir mér, því Alþingi hefur eftirlitshlutverki að gegna, hvort meiri hlutinn eigi bara að taka öllu sem kemur frá framkvæmdarvaldinu sem einhverri himnasendingu. Ég undrast að ekki sé meiri gagnrýni og sé ekki rýnt meira af gagnrýni í þessa þingsályktunartillögu.

Á bls. 22 er talað um vaxtakostnaðinn, vaxtagreiðslur, og kemur í ljós að vaxtakostnaður hins opinbera á Íslandi er meiri en allra aðildarríkja Evrópusambandsins, líka Grikklands, þannig að okkur bjóðast verri kjör en öllum þeim þjóðum sem við berum okkur saman við, sem hlýtur að vera mjög mikið áhyggjuefni. Ég vildi vita hvaða skoðun hv. þingmaður hefur á því. Ég tel að það sé vegna þess að við erum með gjaldmiðil sem fólk treystir ekki og sitjum þar af leiðandi uppi með verri vaxtakjör. Ef það er svona mikilvægt að lækka skuldir, væri þá ekki ráð að reyna að gera eitthvað í gjaldmiðilsmálum þjóðarinnar?

Á bls. 28, það er spurning nr. tvö, segir að áætlunin feli í sér 4 milljarða kr. „útgjaldasvigrúm sem gert er ráð fyrir að verði ráðstafað á síðari stigum fjárlagagerðarinnar til einstakra málaflokka í samræmi við stefnumörkun ríkisstjórnarinnar“. Þetta er væntanlega ekki varasjóðurinn svokallaði, sem er þá einir 5 milljarðar. Þarna eru 4 milljarðar sem fara í eitthvert útgjaldasvigrúm. Er nú gott að þarna liggi 4 milljarðar í potti? Og hverjir eiga að sækja í þessa 4 milljarða? Verður ekki mikil ásókn í þá, eins og við höfum rætt? Er þetta dæmi um aga?