144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[12:55]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa málefnalegu fyrirspurn. Það vill nú þannig til að það kemur fram í fréttum RÚV — og ekki lýgur RÚV — að væntanlegur stöðugleikaskattur, sem kynntur var fyrir ríkisstjórn í morgun, skilar ríkissjóði 500 milljörðum króna. Þessir samningar fela í sér að hér verður algjörlega breytt staða, bæði vegna erlendra skulda og vaxtakostnaðar sem ég fór yfir áðan. Fljótt á litið miðað við þessa upphæð, ef þetta verður með þeim hætti sem birtist í fréttum — ég hef ekki aðkomu að og hef ekki séð þau frumvörp sem stendur til að leggja fram — þá erum við jafnvel að tala um að vaxtagreiðslur ríkissjóðs geti lækkað um 30–45 milljarða á ári.

Virðulegi forseti. Það er ýmislegt hægt að gera við 30–45 milljarða á ári sem ríkið er nú að borga í vexti. Þar er komið svigrúm til að efna það sem stendur í þingsályktunartillögunni, þ.e. að fara að borga inn á skuldir lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna. Þar er komið svigrúm til að setja eitthvert fé í að koma til móts við aldraða og öryrkja. Þar er komið svigrúm til að leggja enn frekara fjármagn í Landspítalann og heilbrigðiskerfið allt, í lyfjakostnað.

Virðulegi forseti. Við erum að horfa fram á gjörbreytta stöðu. Það segir sig sjálft að þegar ríkissjóður fær á milli 35 og 45 milljarða aukalega á ári, sem áður fór í vaxtakostnað, þá gerbreytir það stöðunni, fyrir utan það að allir hagvísar eru jákvæðir, hagvöxtur er á uppleið, hér er lítið atvinnuleysi, við erum að framleiða meira í okkar framleiðslukerfi — framtíðin er því afar björt.