144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[13:54]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Eins og fram kemur í nefndaráliti minni hluta, og hér kom fram í framsöguræðu framsögumanns minni hluta fjárlaganefndar, hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur, þá er þessi ríkisfjármálaáætlun óskaplega dapurleg eða daufleg þegar kemur að afkomu ríkissjóðs á þessu fjögurra ára tímabili. Það er lítið borð fyrir báru. Engu að síður berast nú fréttir af því að ríkisstjórnin hafi samþykkt framlag inn í gerð kjarasamninga sem er líklega ávísun á rúmlega 20 milljarða tekjutap og útgjöld til samans hjá ríkissjóði; ef tekjur af tekjuskatti fara niður um allt að 16 milljarða, að minnsta kosti 9–11, og nokkurra milljarða útgjöld koma til sögunnar annars vegar vegna húsnæðisbóta og hins vegar stofnstyrkja.

Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann: Hvaða kynningu fékk fjárlaganefnd á þessum loforðum ríkisstjórnarinnar? Í öðru lagi: Liggur fyrir í fjárlaganefnd einhver bráðabirgðagreining á þessum breyttu forsendum? Í þriðja lagi má kannski spyrja: Kom ekki til álita, var það ekki rætt í fjárlaganefnd, að bíða með afgreiðslu áætlunarinnar að minnsta kosti þangað til eitthvert lauslegt mat hefði farið fram á þessum nýju forsendum?

Auðvitað er einfalt að reikna áætlunina niður um eina 20 milljarða vegna tapaðra tekna og aukinna útgjalda, en dæmið er að sjálfsögðu ekki svo einfalt og þá er hún náttúrleg komin í mínus flest árin, en á móti koma auðvitað auknar tekjur ríkisins í einhverjum mæli vegna launahækkana og mögulegrar aukinnar þenslu, en svo gætu líka komið frádráttarliðir vegna vaxtahækkana.

Flestir greiningaraðilar eru sammála um að Seðlabankinn muni hækka vexti, líklega um að minnsta kosti 50 punkta strax núna 10. júní, og líklegt sé að meira bíði í (Forseti hringir.) ágúst. Þetta eru það mikil frávik að ég spyr: Hvernig tókst fjárlaganefnd (Forseti hringir.) á við þetta?