144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[14:01]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er algjörlega hárrétt ábending og ég velti fyrir mér hvernig menn ætla að greiða þessari áætlun atkvæði sitt. Hún er í fyrsta lagi ónákvæm og í öðru lagi er hún nú þegar ljóslega úr lagi gengin. Með hverju eru hv. þingmenn að greiða atkvæði ef þeir ætla að fara að því sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir lagði til hér fyrr í dag, þ.e. að þessi þingsályktunartillaga yrði samþykkt óbreytt? Það er ljóst að það er lítið borð fyrir báru, eins og hv. þingmaður benti á, og að farið er að ganga á þann afgang sem þó er gert ráð fyrir. Auðvitað eigum við þingmenn rétt á því að fá skýringu á því hvernig þetta á að leggjast.

Það er líka athyglisvert að gert skuli ráð fyrir því að brjóta 69. gr. laga um almannatryggingar. Ég velti því fyrir mér, hvort hv. þingmenn, velji þeir að greiða atkvæði með þessari þingsályktunartillögu, geri sér grein fyrir því að um leið eru þeir að segja: Já, við ætlum að fara gegn 69. gr. laga um almannatryggingar. Ég er ekki viss um að fólk hafi áttað sig á því.

Það hlýtur að vera eðlileg krafa að á meðan þessi þingsályktunartillaga er í umræðu þá komi hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, annaðhvort á fund nefndarinnar eða hingað í ræðustól, og fari yfir breytingarnar sem nú þegar eru fyrirséðar á ríkisfjármálaáætluninni sem hefur aðeins verið lifandi í rétt rúma tvo mánuði.