144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[14:06]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst mikilvægt að við fáum að vita hvar eigi að skera niður fyrir kjarasamningum BHM eins og boðað er í ríkisfjármálaáætluninni sem hv. þingmaður styður væntanlega. Ég er hins vegar að gagnrýna að það komi ekki fram hvernig eigi að skera niður og hvar eigi að skera niður. Við vitum auðvitað að stærsti hlutinn af ríkisútgjöldunum fer í heilbrigðismál og velferðarmál, vaxtaniðurgreiðslur og menntamál. Ég óttast að veikja eigi stoðir velferðarsamfélagsins og það er hreinlega sagt, þegar talað er um kjaramál í ríkisfjármálaáætluninni, að skera eigi niður ef ríkisstarfsmenn fái meira en 2% kaupmáttaraukningu á ári út spátímann.

Hv. þingmaður kveinkar sér undan því að hæstv. ríkisstjórn sé kölluð ríkisstjórn ríka fólksins, en það er ekki að ástæðulausu. Það er vegna þess að af þeim gjöldum sem sá hópur þjóðfélagsins hefur greitt í sameiginlega sjóði þar hefur verið afsláttur. Það er afsláttur af veiðigjöldum, auðlegðarskatturinn er lækkaður, orkuskatturinn lækkaður. Breytingarnar á virðisaukaskatti og vörugjöldum nýtast í krónutölu langbest þeim sem hafa mest á milli handanna. Hið sama gildir um niðurgreiðslu skulda.

Það er því alveg ljóst að peningar voru ekki teknir frá ríka fólkinu til þess að bæta heilbrigðiskerfið, þeir voru teknir einhvers staðar annars staðar frá. Þetta finnst mér ekki góð leið. Ég hefði frekar viljað halda þessum peningum (Forseti hringir.) inni til að bæta heilbrigðiskerfið, menntakerfið og innviði samfélagsins.