144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[14:08]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefnir aldrei, og enginn hv. þingmaður stjórnarandstöðunnar, að það er búið að auka bæði hlutfallslega og í fjármunum framlög til heilbrigðis- og tryggingamála. Þvert á móti er öðru haldið fram. Það liggur fyrir að þessi ríkisstjórn hefur forgangsraðað í þágu heilbrigðismála og til tryggingamála.

Varðandi þá mýtu um að verið sé að færa fjármuni til þeirra sem eru ríkari og þá er verið að vísa í skattamálin — eigum við að fara aðeins yfir það?

Veiðigjöldin, gjöld voru færð frá litlum og meðalstórum útgerðum yfir á stærri útgerðirnar.

Auðlegðarskatturinn, hann var tímabundinn. Hv. þingmaður sagði sjálfur að hann yrði ekki endurnýjaður. Það er væntanlega ein ástæðan fyrir því að hann stóðst þegar farið var með málið fyrir Hæstarétt, að hann var tímabundinn, því að svona eignarskattar eru ekki til staðar. Þetta var tímabundinn skattur, sem síðasta ríkisstjórn kom á, við breyttum því ekki, hann rann bara út. Hv. þingmaður sagði sjálf á opinberum vettvangi að hann yrði ekki endurnýjaður.

Raforkuskatturinn, hann var sömuleiðis tímabundinn og var kynntur þannig af síðustu ríkisstjórn.

Varðandi virðisaukaskattinn þá er það vægast sagt villandi að segja að í krónum talið komi það betur þeim sem meira hafa. Það vita það allir, og það var farið yfir þetta allt saman, að eðli málsins samkvæmt kemur þetta sér einstaklega vel fyrir þá sem lægri hafa tekjurnar. Þetta er útúrsnúningur, virðulegur forseti.

Niðurgreiðslur skulda. Hverjir ætli fái nú mest út úr því að fá niðurgreiðsluna sem var sama krónutala, virðulegi forseti, miðað við gefnar forsendur þegar kom að leiðréttingunni? Auðvitað eru það þeir sem hafa lægri tekjur og meðaltekjur. Fyrir þá sem eru mjög ríkir skipti þetta litlu máli. Þetta skipti miklu meira máli fyrir þá sem hafa lægri tekjur og meðaltekjur.

Ég hvet hv. þingmann til þess að lýsa því yfir (Forseti hringir.) hvar hefur verið forgangsraðað, segja bara satt og rétt frá þegar kemur að heilbrigðis- og tryggingamálum.