144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[14:13]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér þingsályktunartillögu um ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016–2019, sem er að einhverju leyti orðin úrelt. Þetta er vissulega áætlun en eins og hefur komið fram fyrr í umræðunni var vísað í þessa þingsályktunartillögu eins og um spá væri að ræða. Þetta er áætlun fyrir næstu fjögur árin, sem vissulega byggir á spám. Mér finnst mjög mikilvægt að við lítum ekki á þetta sem eitthvað sem þarf að gera vegna þess að þingsköp kveði á um það, heldur sé vandað til verka og við reynum að nota þetta sem eitthvert tæki þegar við erum að eiga við ríkisfjármálin.

Ég verð að lýsa yfir vonbrigðum með nefndarálit meiri hlutans sem er bara stuttur útdráttur úr þessari þingsályktunartillögu og gagnrýnislaus með öllu. Mér finnst mjög mikilvægt að Alþingi sinni eftirlitshlutverki með framkvæmdarvaldinu og þá á maður ekkert að horfa til þess hvort maður situr í minni hluta eða meiri hluta.

Það eru líka vonbrigði að í þessari áætlun eru í sjálfu sér engir rammar, þetta er, eins og komið hefur fram, bara eins og litla heftið sem kemur með fjárlagafrumvarpinu að hausti, spár og spekúleringar, engin tilraun gerð til að reyna að skipta henni upp í málaflokka, heilbrigðismál, menntamál og þar fram eftir götunum. Það er því eitt og annað hér sem ég gagnrýni.

Ég ætla að byrja á umfjöllun um skuldir. Það er vitað að ríkið skuldar töluvert mikið og vaxtagjöld og vaxtagreiðslur eru íþyngjandi. Þær nema á einu ári eins og einum nýjum Landspítala til að setja hlutina í eitthvert samhengi, og í raun er ekki gert ráð fyrir að skuldirnar lækki að nafnvirði heldur munu þær einfaldlega lækka sem hlutfall af vergri landsframleiðslu vegna þess að verg landsframleiðsla eykst með ári hverju. Ekki er því beinlínis gert ráð fyrir að greitt verði inn á skuldir, og það sem er mjög athyglisvert í úttektinni, í greinargerðinni, er að vaxtakostnaður hins opinbera er mjög hár, sem þýðir þá að vaxtakjörin sem okkur bjóðast eru verri en í öllum öðrum löndum sem við berum okkur saman við, þar með talið Grikkland. Það er áhyggjuefni, sérstaklega þegar við horfum til þess að það er líklegra en ekki að vaxtakjör versni, þ.e. að vextir hækki í nágrannalöndunum.

Í ljósi þessa er gríðarlega mikilvægt að greiða niður skuldir ríkisins til að minnka vaxtakostnaðinn og hefðu 80–100 milljarðarnir, sem notaðir voru í skuldaniðurfellingu, betur verið nýttir í það. Mér fannst það mikil afglöp að fara í þá framkvæmd, og enn vitum við ekki nákvæmlega hvernig það skilaði sér, hverjir fengu mest út úr þeirri aðgerð og hverjir minnst, við bíðum enn eftir svörum við því.

Á bls. 17 er verið að tala um afkomu ríkissjóðs og þá er gert ráð fyrir því að, eins og hér segir, afkoma ríkissjóðs skili afgangi sem verði að minnsta kosti 10 milljarðar kr. fyrsta árið, árið 2016, og að afgangurinn vaxi síðan jafnt og þétt ár frá ári og verði orðinn nálægt 40 milljörðum kr. árið 2019.

Nú hlýtur maður að velta því fyrir sér hvort þetta sé ekki þegar í uppnámi í ljósi þess að ríkisstjórnin hefur sett fram áætlanir um að lækka tekjuskatt og verða af 16 milljörðum á kjörtímabilinu vegna þess, en ekki 6 milljörðum eins og gert er ráð fyrir í þessari áætlun; bara hérna erum við að tala um 10 milljarða sem ekki lá fyrir að mundu fara í þessa aðgerð þegar áætlunin er unnin væntanlega í upphafi árs.

Það er líka athyglisvert að verið er að tala um að fara úr þremur tekjuskattsþrepum í tvö. Í sjálfu sér er það ekkert útskýrt nánar í þessari áætlun, en sagt að sú aðgerð muni kosta 2 milljarða á næsta ári og fara stigvaxandi upp í 6 milljarða á árinu 2019, sem nú eru þá orðnir 16 milljarðar á kjörtímabilinu. En í tillögum ríkisstjórnarinnar, sem hægt er að finna á heimasíðu Stjórnarráðsins eða forsætisráðuneytisins, er þessu lýst mun ítarlegar. Ég veit ekki til þess að þær upplýsingar hafi legið fyrir. Það má vel vera að þær hafi verið ræddar eitthvað í hv. efnahags- og viðskiptanefnd en ég er alla vega að sjá í fyrsta skipti ítarlega útlistun á því með hvaða hætti þessar tekjuskattsbreytingar verða. Mér hefði fundist eðlilegt að sú útlistun væri í þessu plaggi ef menn telja að það sé mikilvægt og hafi einhverja vigt. En þetta er greinilega meira gert til að friða þingheim vegna þess að það ber að leggja svona fram samkvæmt þingsköpum. Ég get ekki litið öðruvísi á það.

Það er líka áhyggjuefni að þær aðgerðir sem ríkisstjórnin fer nú í voru framlag ríkisstjórnarinnar inn í kjarasamningaviðræður en virðast ekki hafa nein áhrif á þær viðræður sem eru í gangi við BHM og Félag hjúkrunarfræðinga. Þetta er pakkinn fyrir almenna markaðinn og má þá búast við öðrum pakka til að reyna með einhverju móti að ná einhverjum botni í þessar kjaraviðræður, sem eru nú orðnar langvinnar og hatrammar, til að reyna að leysa þann hnút?

Þá spyr maður: Er ekki betra að ríkisstjórnin sé bara almennt með góða stefnu, byggi góðan grunn, en sé ekki alltaf að bregðast við einstökum kjaradeilum? Ég geri mér alveg grein fyrir því að ástandið er erfitt núna en svona getur þetta ekki verið. Þá getum við aldrei unnið neinar áætlanir eða hugsað lengra en eitt ár fram í tímann. Það hefði því kannski verið betra ef þessar áætlanir hefðu verið kynntar með fjárlagafrumvarpinu síðast, ef það hefði orðið til þess að róa vinnumarkaðinn.

Mig langar líka aðeins að ræða um lífeyrisskuldir. Hér er rætt um að greiða eigi 5 milljarða á ári frá og með árinu 2017 inn í B-deild LSR, og það er mjög jákvætt. Það er nauðsynlegt að gera það og reyndar líka í A-deildina en sérstaklega B-deildina. En það sem ég skil ekki hér er hvort taka eigi þetta af afgangi, hvort það verði afgangur á hverju ári sem hægt verður að nota til þess að greiða þessar forinngreiðslur, eins og það er kallað, eða hvort tekið verði lán fyrir þessu. Mér finnst það ekki skýrt í frumvarpinu. Ég spurði reyndar hæstv. fjármálaráðherra að þessu þegar hann flutti málið í upphafi og ég skildi ekki svarið. Mér finnst það skipta mjög miklu máli að þetta sé skoðað vegna þess að ef verið er að taka lán þá er mikilvægt að þau vaxtakjör séu góð, ef það á að borga sig.

Hér er líka talað um aðhald á útgjaldahlið og ég get tekið undir það að alltaf þarf að sýna aðhaldssemi. Almennt segir hér að gert sé ráð fyrir 1% raunvexti í umfangi vel flestra rekstrarmálaflokka. Hér er talað um S-merktu lyfin og þá verð ég að taka undir þær áhyggjur sem hafa komið fram í fyrri ræðum. Ef þessi áætlun á að ganga eftir þá erum við í raun að segja að við ætlum ekki að taka inn ný S-merkt lyf. Það er einmitt í umræðunni í dag að fólk fær ekki nauðsynleg lyf því að það er kvóti á það, ákveðinn fjöldi getur fengið ákveðið lyf. Ef það er ekki brot á jafnræðisreglu þá veit ég ekki hvað. Þetta er óraunhæft og í raun viðurkenndi hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, að væntanlega væri þetta óraunsætt mat, vöxtur á S-merktum lyfjum yrði meiri en hér er gert ráð fyrir.

Það er einnig áhyggjuefni hve lítið virðist eiga að fara í fjárfestingar. Ekki er gert ráð fyrir byggingu nýs Landspítala, einungis hönnun á meðferðarkjarna, og eins að sjúkrahótelið verði klárað, að Norðfjarðargöng og fangelsið á Hólmsheiði verði klárað, en síðan liggur ekki mikið fyrir hvað á að gera, ef eitthvað. Það er virkilegt áhyggjuefni því að mikil þörf er á uppbyggingu innviða hér, það hefur setið á hakanum. Fjárfesting er sem sagt áætluð 30,2 milljarðar 2017, 30,7 2018 og 32,3 árið 2019, sem er 1,2% af vergri landsframleiðslu. Það er mjög lítið og það er áhyggjuefni.

Það er eitt í viðbót sem ég vildi koma inn á, en það eru óreglulegu liðirnir sem svo kallast. Ég geri athugasemdir við það hve margir liðir eru settir undir þennan hatt. Þessir óreglulegu liðir, sem eru lífeyrissjóðsskuldbindingar, fjármagnstekjuskattur, afskriftir skattkrafna, atvinnuleysi, Jöfnunarsjóður sveitarfélaga, ríkisábyrgðir, tap á kröfum um tjónabætur, framlög til Íbúðalánasjóðs, niðurfærsla á verðtryggðum húsnæðisskuldum og vaxtagjöld. Það er eiginlega ekkert hér sem ætti að flokka sem óreglulegt nema kannski framlög til Íbúðalánasjóðs og niðurfærsla á verðtryggðum húsnæðisskuldum. Annað eru liðir sem, eins og sést í þessari áætlun, eru meira og minna á hverju ári með svipaða tölu. Sumt af þessu er vissulega erfitt að spá fyrir um eins og atvinnuleysi, en ef menn eru með góð gögn þá eiga þeir að geta séð fyrir liði eins og lífeyrissjóðsskuldbindingar nokkur ár fram í tímann, afskriftir skattkrafna einnig. Þetta vekur upp spurningar. Á árinu 2016 er gert ráð fyrir að óreglulegir liðir nemi tæplega 24% af áætluðum heildarútgjöldum þess árs. Það er ansi mikið fyrir liði sem stjórnvöld líta þannig á að þau hafi eiginlega enga stjórn á.

Ég vil ítreka að mér finnst þetta allt of veigalítið plagg og mér finnst eins og ekki sé verið að gera of mikla tilraun til að vinna ítarlega og vandaða áætlun fjögur ár fram í tímann. Vissulega eru alltaf einhverjir óvissuþættir en mér finnst þetta ekki nógu gott og sérstaklega ekki þegar ríkisstjórn kemur svo nokkrum vikum eftir að búið er að flytja þetta mál og er allt í einu farin að fara í fjárútlát sem hún vissi sjálfsagt ekki af þegar hún var að vinna þetta nokkrum mánuðum fyrr. Þá veltir maður því fyrir sér hvernig við ætlum að breyta um vinnubrögð og hvernig við ætlum að fara að því að tileinka okkur vinnubrögð Svía sem móta stefnu til langs tíma. Það gengur auðvitað ekki nema menn vandi sig og taki svona vinnu alvarlega. Mér finnst eins og að við vinnu þessa plaggs hafi menn hreinlega ekki verið að því.