144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[14:30]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka andsvarið. Það er líka draumur minn að við tökum upp annan og stöðugri gjaldmiðil og þá horfi ég að sjálfsögðu til evrunnar og inngöngu í Evrópusambandið. Ég er eiginlega furðu lostin yfir því hve lítið vægi sú umræða fær á Íslandi. Síðast í gær var ég að hlusta á útvarpið og þar var verið að bera vaxtakjör íslenskra heimila saman við vaxtakjörin á Norðurlöndunum.

Að sjálfsögðu mundi stöðugri gjaldmiðill ekki endilega tryggja að vaxtagjöld hér væru eins og á hinum Norðurlöndunum. Það er rétt sem núverandi stjórnvöld segja, og ég held að allir geri sér grein fyrir, að agi í ríkisfjármálum er þar grundvallaratriði. Það þýðir ekki að skila fjárlögum með halla á hverju ári og við verðum að sjálfsögðu að sýna aga. En ég held að það mundi vera hið besta mál, en það er einhvers staðar inni í framtíðinni. Þangað til er það eina sem við getum gert að reyna að minnka skuldastabbann. Ég hefði viljað nota þá 80 eða 100 milljarða sem fóru í skuldaniðurfellinguna til þess verkefnis. Bara það hefði lækkað — nú get ég ekkert reiknað það í fljótheitum en mér finnst eins og við höfum einhvern tíma skoðað það og að það hefði getað lækkað vaxtagreiðslur sem næmi 5 milljörðum á ári, þ.e. ef við hefðum lækkað skuldirnar sem nemur þeim 100 milljörðum.