144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[14:33]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Okkur liði betur hér á Íslandi og hér væri málum betur farið ef fleiri hlustuðu á hv. þm. Össur Skarphéðinsson og mig og aðra þá sem tala fyrir því að við tökum upp annan gjaldmiðil. Tilraunin með krónuna hefur mistekist, það er bara þannig, hún hefur mistekist.

Ég veit ekki alveg hvernig við komum þessu máli enn betur á dagskrá en þetta er fyrir mér stærsta málið. Ef við ætlum að bæta lífskjör hér á Íslandi þá þurfum við gjaldmiðil sem fólk vill raunverulega eiga. Þá getum við ekki verið með óverðtryggða krónu og svo verðtryggða krónu; og svo fá allir sem það geta laun í gjaldeyri og þeir sem það geta gera upp í öðrum gjaldmiðlum. Það bara gengur ekki.

Það er rétt að þessi ríkisstjórn hefur að einhverju leyti verið að afsala sér tekjum frá því að hún tók við. Mér er minnisstætt fyrsta málið sem snerist um að hækka ekki vask á gistingu, úr 7% í 14%, sem enginn var einu sinni að gera athugasemdir við, sem allir bjuggust við að yrði. Þá er það fyrsta málið og þar urðum við af hálfum til einum milljarði á árinu 2013 og örugglega 2 til 3 milljörðum á árinu 2014; eða er ég að rugla, 2014 og svo 2015.