144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[14:35]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að ég fari rétt með það að kaffibollinn í Rovaniemi á Norður-Finnlandi sé helmingi dýrari en kaffibollinn á veitingahúsi á Sikiley. Samt er evra á báðum stöðum. Halda menn að vaxtakjör og skuldakjör almennt séu hin sömu hvar sem er á evrusvæðinu frekar en þau eru mismunandi í Hnífsdal og í Reykjavík, einfaldlega vegna þess að fólki buðust ekki lán á sömu kjörum í Hnífsdal og í Reykjavík frá íslensku bönkunum? Það er króna á báðum stöðum og öllum þessum stöðum.

Þetta er svo mikil einföldun að jaðrar við einfeldni. Þetta gefur enga raunhæfa mynd, þessi umræða um gjaldeyrismál, og hið mikla himnaríki sem menn halda að Evrópusambandið sé, að þá sé öllu bara borgið hér.

Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Hún ræðir umræðuefnið hér, sem er tillaga til þingsályktunar um ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016–2019. Eftir því sem ég skildi hv. þingmann þá telur hún það góðra gjalda vert að reyna að setja niður slíka áætlun, en það sé verr af stað farið en heima setið ef áætlunin er fyrst og fremst sett fram af formsástæðum, vegna þess að innihaldið sé ekki til að treysta á. Það er alveg rétt, sem fram hefur komið, að þar eru margir óvissuþættir.

Mig langar til að biðja hv. þingmann í örstuttu máli að segja okkur, til að maður átti sig betur á áherslum í hennar málflutningi: Hverjir eru í örstuttu máli helstu óvissuþættirnir sem gera þessa ríkisfjármálaáætlun ómarktæka?