144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[14:44]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er gott að heyra að hv. velferðarnefnd mun taka þetta mál til umfjöllunar, þetta er eitthvað sem þarf að fá botn í.

Auðvitað gætu útgjöld til heilbrigðismála í raun vaxið endalaust, það er ekkert þak, það er alltaf hægt að gera betur.

Varðandi S-merktu lyfin mundi ég vilja spyrja: Hvað kostar, eins og í tilfellum þess fólks sem hefur verið í fréttum núna, að gera ekki neitt? Hvaða annar kostnaður leggst þá á heilbrigðiskerfið ef einhver fær ekki lyf sem geta beinlínis gert að verkum að viðkomandi getur þá starfað, verið á vinnumarkaði og haldið heilsu? Þá er ég bara að tala um fjárhagslega þýðingu, ég er ekki byrjuð að tala um hvaða þýðingu þetta hefur fyrir fólk.

Þá getur maður líka velt fyrir sér á móti, og mér finnst við kannski ekki gera nóg af því, með hvaða hætti við getum lækkað lyfjakostnað, ef við horfum á það að við erum þjóð sem neytir mjög mikils af lyfjum. Þegar kemur að svefnlyfjum, geðlyfjum, blóðþrýstingslyfjum og öðru er í mörgum tilfellum hægt að minnka lyfjanotkun eftir öðrum leiðum. En eru sjúklingar að fá þá aðstoð sem þeir þyrftu, til dæmis með breyttu mataræði og þar fram eftir götunum? Vísa læknar fólki til dæmis á næringarfræðinga? Við getum ekkert gengið út frá því að allir séu í færum til þess að breyta um lífsstíl, það getur verið mjög flókið og erfitt mál.

Mér finnst svo margt sem er svo spennandi í þessum málaflokki, sem hv. þingmaður þekkir vel. En ég held að það væri til mikils að vinna að reyna að lækka lyfjakostnaðinn þar sem lífsstílsbreytingar geta skipt sköpum. En S-merktu lyfin eru nú að mestu leyti þannig, held ég, að þar er um að ræða sjúkdóma sem eru erfiðir og ekkert hægt að gera í því. Og auðvitað viljum við vera þjóð sem veitir þegnum okkar bestu mögulegu þjónustu.