144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[15:10]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru nokkur atriði í þessari áætlun sem mig langar að ræða við hv. þingmann. Ég ætla að byrja hér á einu. Á bls. 2 er fjallað um sölu á eignarhlutum ríkisins í Landsbankanum og þar kemur fram að gert sé ráð fyrir því að sala á 30% hlut í Landsbankanum fari fram á árunum 2015 og 2016.

Þegar við erum að samþykkja ríkisfjármálaáætlun vill maður hafa hana eins raunhæfa og gerlegt er. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort það hafi komið fram fyrir nefndinni að líkur séu á því að sala muni fara fram á hlutum í Landsbankanum á þessu ári eða því næsta. Mér þætti vænt um að fá viðbrögð frá hv. þingmanni við því hvort menn telji það í alvörunni gerlegt.

Ef gert er ráð fyrir því í tekjuhluta þessarar ríkisfjármálaáætlunar þá erum við að leggja af stað með mikla skekkju. Maður sér það reyndar víðar. Það er alveg ótrúlegt hvað þetta er vanbúin ríkisfjármálaáætlun. Þó að ég fagni því að hún sé komin fram sem slík þá veit ég ekki hversu mikið gagn er í því þegar menn fara ekki af stað með allt inni, sérstaklega það sem vitað er um.

Í öðru lagi vil ég nefna, varðandi sölu á eignarhlutum ríkisins í Landsbankanum, að það kemur fram í samþykktum Framsóknarflokksins að hann er andsnúinn því að Landsbankinn sé seldur, hann vill að hann sé samfélagsbanki. Ef ég skil það hugtak rétt þá er ekki gert ráð fyrir því að einn einasti hlutur sé seldur í þeim banka. Mig langar líka að vita, þar sem formaður nefndarinnar er framsóknarkona, hvort þessi umræða hafi átt sér stað og hvort einhverjar vöflur hafi verið á mönnum (Forseti hringir.) eftir að þessi stefna var samþykkt hjá Framsóknarflokknum.