144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[15:42]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir hennar spurningar. Þegar kemur að aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að greiða fyrir gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði þá er það umfangsmikil aðgerð og það kemur vel fram í áætluninni að það er óvissuþáttur hvernig fer um niðurstöðu kjarasamninga. Ég held að það hafi verið óhjákvæmilegt að hæstv. ríkisstjórn kæmi með myndarlegt útspil og náð að tengja saman umbætur á húsnæðismarkaði, og ekki síst úrbætur í félagslegu húsnæði, og aðgerðir á skattahliðinni, sem hefur áhrif á tekjuöflunarhliðina, til að auka ráðstöfunartekjur og bæta í hvað varðar kjör þeirra lægstlaunuðu.

Meginmarkmiðin náðust, lægstu laun verða hér í lok tímabils 300.000 kr., lægstu launin hækkuðu mest. Síðan eru mildari áhrif upp launastigann. Þetta met ég mikils. En gagnvart áætluninni þá met ég það þannig — það er komið inn á það í áætluninni — að þetta er vissulega óvissuþáttur og hann er umfangsmikill en athygli okkar er vakin á því. Ég tel það því ekki rýra gildi áætlunarinnar en ég virði þó það sjónarmið hv. þingmanns.

Þegar fram í sækir verðum við með sterkari útgjaldaramma og raunhæfari og ítarlegri áætlun. Við getum þá gefið okkur fyrir fram hver möguleg áhrif og umfang slíkra samninga verði. Ég (Forseti hringir.) verð að svara risastórri spurningu, seinni spurningu, í seinna andsvari.