144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[15:47]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna. Mér finnst það athyglisvert sem hann segir hér í restina. Ég hélt að það hefði verið samþykkt að selja ekki þessi 30% sem heimild er fyrir í dag.

Mig langaði til að ræða aðeins við þingmanninn um fjárfestingarnar sem gert er ráð fyrir í þessu plaggi. Á bls. 6 segir, með leyfi forseta:

„Hið lága fjárfestingarstig hins opinbera undanfarin ár megnar ekki að vinna upp afskriftir. Við þær aðstæður gengur á fjármunaeignir sem dregur úr vaxtargetu hagkerfisins til frambúðar.“

Þarna liggur fyrir að ekki á að auka fjárfestingar hins opinbera. Þetta er um það bil 1,2% af vergri landsframleiðslu. Ég held að það hafi verið 4–5% fyrir hrun. Auðvitað hugsar maður til þess að verið er að setja þessa innviðauppbyggingu yfir á framtíðina og til barnanna okkar. Þó að ríkisstjórnin hafi kastað einhverjum smáaurum í það liggur engin framtíðarsýn fyrir.

Ég vil spyrja þingmanninn hvort honum finnist þetta ekki áhyggjuefni og hvort honum finnist ekki að leggja þurfi fram skýrari mörk. Við erum ekki bara að tala um hlutfall af landsframleiðslu, 2017, 2018 og 2019 er þetta nánast sama talan, 30 milljarðar, 30 til 32, eitthvað slíkt. Þetta getur tæplega talist ásættanlegt. Það er líka talað um eitthvert 6 til 7 milljarða svigrúm en ekkert sagt til um það í hvers konar fjárfestingar það eigi að fara.

Því spyr ég þingmanninn: Veit hann eitthvað annað en við um þessar fjárfestingar? Telur hann ekki að við þurfum að fjárfesta í uppbyggingu á heilsugæslu eða hjúkrunarheimilum eða öðru slíku, einhverjum innviðum ferðaþjónustunnar og allt það sem við höfum rætt um hér? Þetta svigrúm virðist ekki segja okkur að það sé fram undan.