144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[15:49]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir spurninguna sem snýr að fjárfestingu. Fjárfestingar hafa sannarlega verið að vaxa á liðnum árum, en þó hægar en við hefðum kosið. Vöxturinn eins og hann birtist okkur í þessari áætlun er aðallega drifinn áfram af fjárfestingu atvinnuvega. Það er mjög mikilvægt.

Nú er það svo að við þurfum að fjárfesta umfram eðlilegt viðhald og endurnýjun og þegar við horfum á samspil fjárfestinga og afskrifta þá eru innviðir ekki eignfærðir í efnahagsreikningi ríkissjóðs, en stendur mögulega til að bæta í þar. Þá er erfitt að meta allt sem við þekkjum úr atvinnulífinu sem línulegar afskriftir, vegna þess að yfirleitt duga þeir innviðir sem við fjárfestum í til mun lengri tíma, í marga tugi ára. Við þyrftum þá væntanlega að horfa á eitthvert hrakvirði í því.

Til að ég svari nú í einhverju spurningunni þá finnst mér það jákvæðasta, eins og kemur fram í áætluninni, að fjárfestingin er drifin áfram af fjárfestingum í atvinnulífinu. Við höldum sjó í fjárfestingum hins opinbera.