144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[15:51]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hefði nú viljað fá skýrari svör frá hv. þingmanni um þetta efni. Ég held hann hafi skotið sér svolítið undan því að svara því hvort þetta er ásættanlegt eins og það lítur út í þessari áætlun. Ég tel svo ekki vera. Við vitum alveg að hér er kallað á fjárfestingar víða að og samgönguáætlun, eins og hér var sagt, er ekki undir og ekki er gert ráð fyrir Landspítalanum o.s.frv. Það er mjög margt í grunninnviðunum sem er augljóslega ekki hægt að taka á miðað við þetta.

Hv. þingmaður svaraði því ekki hér áðan, þegar spurt var um almannatryggingarnar, að þær fylgdu ekki lögum og launaþróun. Það væri áhugavert að fá svar hans við því. Það er auðvitað eitt af þessum prinsippum sem við viljum væntanlega fara eftir og viljum ekki láta brjóta á fólki.

Það kemur fram í þessu plaggi að samneyslan er nánast að komast í sögulegt lágmark ef þetta gengur eftir. Mig langar til að spyrja hv. þingmann (Forseti hringir.) hvort það sé eitthvað sem Framsóknarflokkurinn getur sætt sig við.