144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[15:52]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Aðeins varðandi fjárfestinguna svona til að bæta við: Jú, vissulega er hið opinbera að fara í fjárfestingar sem ekki koma skýrt fram í áætluninni en eru þá til bóta, í plús á fjárfestingarhliðinni, þannig að það er í sjálfu sér jákvætt. Hv. þingmaður nefndi hér Landspítala og innviði í ferðaþjónustunni, svo eru auðvitað atvinnuvegirnir hér. Atvinnugreinin sem slík í ferðaþjónustunni er að byggja hér upp gríðarlega, sem við gætum kallað ytri gerð ferðaþjónustunnar. Við megum ekki gleyma því að greina þarna á milli þess sem við köllum innviði, sem nýtast öllum þegnum þjóðfélagsins, og ytri gerðarinnar þar sem atvinnugreinin verður að fá svigrúm og rými til að fjárfesta í hótelum og fleiru.