144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[15:54]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er ástæða til að þakka hv. þingmanni fyrir athyglisverða ræðu, hún var ágæt samantekt á nokkrum meginatriðum þessarar tillögu, einkum forsendum hennar og ramma. Á það var minnt að upphaf hennar mætti finna á árinu 2011. Það er rétt hjá þingmanninum að það hefur verið nokkurra kjörtímabila verkefni að reyna að koma þessum málum í þolanlegt horf. Vonandi er það rétt hjá honum að sú tilraun sem hér er gerð með framlagningu þessarar ríkisfjármálaáætlunar verði vísir að einhverju meira og einhverju sem getur gefið okkur fastara form og meiri aga í þessum efnum.

Ég vil hins vegar nota tækifærið vegna þess að áætlun af þessu tagi er pólitísk þó hún sé auðvitað tæknileg að sumu leyti; hún er pólitísk og varðar ekki bara ríkisfjármálin í þröngum skilningi heldur líka beinlínis stefnu flokkanna og ríkisstjórnarinnar. Ég ætlaði að taka dæmi úr skattamálunum og spyrja hv. þingmann hvað sé á ferðinni í þeirri lýsingu sem gefin er á skattamálunum í kafla 3.4 í tillögunni, þar sem farið er nokkuð þokukenndum orðum um framhald endurbóta, væntanlegra eða meintra, á virðisaukaskattskerfinu og síðan talað um tekjuskattinn. Þar getur maður gert ráð fyrir að haldið verði áfram breytingum (Forseti hringir.) á honum, sem lofað er í sérstökum frumvörpum sem lögð verða fram samhliða frumvarpi til fjárlaga að hausti, eins og hér stendur, með leyfi forseta.