144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[16:28]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Vandinn er nú gamalkunnugur. Þessi áætlun kom frekar seint fram, a.m.k. til nefndar, og efnahags- og viðskiptanefnd hefur ekkert af henni vitað sem er til dæmis mikið álitamál. Er það alveg við hæfi og í lagi? Þó að það hafi svo sem verið nóg að gera í þeirri nefnd held ég að við hefðum gjarnan þegið að fá að fara aðeins yfir áætlunina og koma kannski einhverjum sjónarmiðum á framfæri. Ég segi það fyrir mitt leyti.

Hér var upplýst í morgun að fjárlaganefnd hefur enga kynningu fengið á áhrifum kjarasamninganna og því sem ríkið hefur lofað þar í púkkið. Það liggur ekki fyrir neitt bráðabirgðamat á því hvernig þetta muni breyta forsendum, bæði sá pakki sem ríkisstjórnin lofar beint og svo hvernig þjóðhagsforsendurnar breytast miðað við það sem virðist stefna í, a.m.k. fyrir hluta vinnumarkaðarins. Annað eins hefði nú verið gert. Ég held því miður að það verði bara að horfast í augu við að ef þessi áætlun verður afgreidd svona óbreytt mun hún hafa sáralítið gildi. Það liggur fyrir jafnóðum (Forseti hringir.) og jafnharðan að hún hefur eiginlega ekkert gildi. Næsta plagg sem eitthvert mark verður á takandi verða væntanlega fjárlögin í haust.