144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[16:32]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það kemur mér óvart ef það hefur komið hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni á óvart hvernig ég talaði um ríkisfjármál og skatta og tekjuöflun ríkisins. Ég hélt að það væri ekkert leyndarmál að við höfum verið talsmenn þess að reka öflugt, samábyrgt velferðarkerfi og fjármagna það með sameiginlegum sköttum.(Gripið fram í.) Við höfum viljað stilla þessi hlutföll af í anda þess sem gengur og gerist annars staðar á Norðurlöndunum en ekki í Norður-Ameríku eða einhvers staðar annars staðar. Ég held að ég hafi algjörlega staðið undir því í ræðu og riti og einnig í verki að við meinum það sem við segjum í þeim efnum. Eða hvað? Er hv. þingmaður ekki sammála því að við höfum meðal annars sýnt það í verki á síðasta kjörtímabili? (GÞÞ: Svaraðu …) Þó ber að hafa í huga að menn gerðu ýmislegt þá vegna þess að þeir urðu að gera það og það þurfti að gera það fyrir Ísland, það varð að koma í veg fyrir að ríkissjóður færi á hausinn.

Svarið við spurningunni: Af hverju var auðlegðarskatturinn tímabundinn? er sú að það var lagt af stað með hann tímabundinn eins og fjölmargar aðrar ráðstafanir. Mjög margar þeirra ráðstafana sem við gerðum á árunum 2009–2010 voru lagðar upp til að byrja með til einhverra ára. En hvað stóð í ríkisfjármálaáætluninni strax vorið 2009 og í uppfærslum hennar 2011 og 2012? Það stóð alltaf þar að ef eitthvað af þessari tekjuöflun hyrfi yrði annað að koma í staðinn því að annars næðu menn ekki markmiðum sínum í ríkisfjármálum. Það var alveg ljóst til dæmis að ef menn vildu lækka eða jafnvel fella niður auðlegðarskatt samkvæmt okkar áætlunum varð annað að koma í staðinn. Við stóðum alltaf við það að áætlunin héldi hvað varðaði tekjur og gjöld á báðar hliðar, en svo kemur ríkisstjórn sem lækkar skatta án þess að benda á það á nokkurn hátt hvað á að koma í staðinn. Ætlar hún að skera niður á móti? Eða hvar ætlar hún að afla tekna til dæmis á móti því (GÞÞ: Svaraðu spurningunni.) sem hún er nú að lofa inn í kjarasamningana? (GÞÞ: Svaraðu nú.)

Varðandi stóriðjuna vorum við að sjálfsögðu hlynnt því og höfum verið að iðnaðaruppbygging í landinu sem væri samræmanleg okkar markmiðum (Forseti hringir.) í umhverfismálum gæti farið af stað. Hér var um að ræða sem betur fer í okkar tíð litla og meðalstóra kosti sem höfðu yfirburði yfir þá dólgastóriðjustefnu stórálvera sem ég veit að eru ær og kýr hv. þingmanns. Gagnaver og meðalstór kísilver eru talsvert annað en álversdraumarnir hans.