144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[16:34]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek það ekki alvarlega þótt hv. þingmaður geti aldrei verið nema persónulegur þegar hann heldur ræður. Þetta gengur allt út á persónu viðkomandi þingmanna, hann á mjög erfitt með að vera efnislegur. (Gripið fram í.) Það er bara eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er.

Förum aðeins yfir þetta, hv. þingmaður talar hér um litla stóriðju. Það var farið út í Vaðlaheiðargöng með ríkisábyrgð, það var farið út í göng sem eru ekki fyrir almenning heldur bara fyrir stóriðjuna, það átti að kosta 1,8 milljarða en var svo illa undirbúið að það kostar 3,1 milljarð. Það var líka gerður sérstakur ívilnunarsamningur hvað þetta varðar og svo kemur maðurinn og talar eins og hann sé á móti stóriðju. Maðurinn beitti sér fyrir henni, hv. þingmaður. Og hv. þingmaður kom og sagði við fólkið sem átti að greiða auðlegðarskattinn: Þetta er tímabundið. (Gripið fram í.)

Ég vek hins vegar athygli á því að þegar farið var út í þá skattlagningu var lífeyrisskuldbindingunum sleppt, (Forseti hringir.) lífeyriseignunum, mestu eigninni sem fólkið á. Þeir sem áttu miklar lífeyriseignir sluppu en ekki þeir sem fengu ekki að vera í lífeyrissjóði.