144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:07]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla fyrst að svara spurningunni. Nei, ég sé það ekki fyrir mér en ég sé að það sé eðlilegt að nýta sér heimild í þingskapalögum til að óska eftir áliti fagnefnda, ekki síst þeirrar fagnefndar sem er með helming ríkisútgjalda í sínum málaflokkum ef frá eru talin vaxtagjöldin.

Varðandi ræðu þingmannsins um eftirminnilega kosningu er hún svo eftirminnileg að núverandi þingmeirihluti er með 60% atkvæðavægi í þinginu en fékk innan við 50% atkvæða kjósenda. Það er það eftirminnilega í þeirri kosningu. Ég tók það fram í ræðu minni að heilbrigðiskerfið hefur verið undir niðurskurðarhnífnum alllengi og má rekja það til ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks ef hún vill fara í einhverja slíka upprifjun. Það er nánast öll 21. öldin. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa verið allt of lengi við völd á þeirri öld sem og þeirri fyrri.

Hvað varðar almannatryggingarnar var 2008 og 2009 bætt mjög miklu inn í kerfin varðandi afnám makatenginga sem var gert löngu eftir að öryrkjadómurinn féll. Það var auðvitað Jóhanna Sigurðardóttir sem kom því í gegn og það var búið að innleiða lágmarksframfærslutryggingu. Gríðarlegt fé hafði verið sett í almannatryggingarnar sem breytti því ekki að þegar þurfti að skera niður var það að sjálfsögðu mjög erfitt. Við vorum byrjuð að bæta inn í ýmis kerfi, þar á meðal heilbrigðiskerfið, og hefðum að sjálfsögðu notað tekjurnar sem okkar aðgerðir hafa skapað, ekki til að (Forseti hringir.) lækka skatta á útgerð og stóreignafólk heldur til að skila aftur inn í þessi kerfi.