144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:11]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég áttaði mig ekki alveg á spurningunni en get sagt hv. þingmanni að vissulega þótti mér leiðinlegt hvað Samfylkingunni gekk illa í kosningum, á það skal ég ekki draga neina dul, en það sem ég færi hér fram hefur ekkert með það að gera heldur pólitíska sýn jafnaðarmanna. Hún breytist ekki á milli kosninga. Jafnaðarhugsjónin er með sterka kjölfestu.

Varðandi það að við höfum molað niður og skýlt okkur við hrunið — allt síðasta kjörtímabil fór í gríðarlega baráttu við að forða ríkissjóði frá gjaldþroti eftir langvarandi valdatíð Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Þá þurfti að fara inn í ýmis kerfi því að mennta- og velferðarkerfið tekur um 70% af útgjöldum ríkissjóðs. (Forseti hringir.) Það verður ekki skorið niður um 200 milljarða án þess að fara inn í þau kerfi og það er óheppilegt að formaður fjárlaganefndar skilji það ekki.