144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:12]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Þetta er fróðleg umræða hér í dag um ríkisfjármálaáætlunina fyrir mann sem nýkominn er á þingið, aftur má auðvitað segja en sambandið rofnar samt þegar hlé eru jafn löng og í þetta skipti, og það dregst upp fyrir þeim manni og væntanlega fyrir áheyrendum hér og áhorfendum öðrum smám saman mynd af framtíðaráætlunum ríkisstjórnarinnar sem ekki eru augljósar í áætluninni.

Það merkasta við áætlunina er kannski það sem ekki er í henni. Hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir dró upp ágæta mynd af þessu. Hún bendir, raunar eins og fulltrúar minni hlutans í nefndinni í nefndaráliti sínu, á þá staðreynd að í þessari áætlun er ekki gert ráð fyrir nema 1% hækkun kaupmáttar lífeyrisþega þegar gert er ráð fyrir 2% hækkun kaupmáttar launamanna. Ríkisstjórnin er sjálf að vigta hverjir eigi skilið að fá launahækkun og hverjir ekki. Það er líka athyglisvert einmitt í þessu sambandi sem fram kemur á síðu 35 og bent hefur verið hér á að ef launahækkanir fara fram úr þessum 2% sem nánast er gert ráð fyrir í áætluninni á að gera — hvað? Þá á að skera niður. Þá á að mæta því, með leyfi forseta, „með viðeigandi gagnráðstöfunum til lækkunar á launakostnaði svo sem með samdrætti í starfsmannafjölda eða vinnumagni og þess háttar“.

Í þriðja lagi kemur svo fram það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon benti á, að tekjuhliðin á að lækka. Mín spurning er þessi til hv. þingmanns: Hverjir eru það sem tapa á þessu? Er það svo (Forseti hringir.) að í raun sé hægt, ef ég orða það fljótlega, að lækka þá lægstu? Eru það ekki millitekjuhóparnir sem fyrst og fremst verða fyrir þeim skerðingum sem hér eru boðaðar í áætluninni?