144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:48]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir ræðuna. Hún kom víða við og mér fannst einmitt athyglisvert og mikilvægt í raunveruleikanum að draga fram tenginguna á milli skatta og útgjalda, þ.e. þjónustu, hvað maður fær fyrir skattana. Ég hef saknað þess í mörg ár þegar menn eru að ræða skatta, t.d. á Norðurlöndunum, að menni spyrji hvað við fáum fyrir það sem við erum að greiða í stað þess að spyrja hvernig við getum lækkað skattana.

Það sem mig langaði til að spyrja hv. þingmann um eru einmitt menntamálin af því að hún nefndi þau í ræðu sinni og við erum í kjördæmi þar sem hefur töluvert verið fjallað um framhaldsskólana, m.a. á Sauðárkróki og í Skagafirðinum. Á sama tíma og hækkuð eru laun kennara og menn hæla sér af því að hækka greiðslur fyrir nemendaígildi hækkar heildarfjárveitingin sáralítið og ekki neitt, þ.e. ekki er gert ráð fyrir að skólinn (Forseti hringir.) geti rekið sig. Það er reiknað með að því þurfi að mæta með niðurskurði, bæði nemendafjölda og jafnvel hindra aukningar. Mig langar að heyra skoðun hv. þingmanns á þessu.