144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:49]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er mikið áhyggjuefni hvernig þessir skólar eiga að geta rekið sig. Þeim er í raun gert að geta ekki tekið inn fleiri nemendur sem þeir vildu gera miðað við þá 25 ára reglu sem á að setja á, að menn geti ekki farið í bóknám ef þeir eru orðnir 25 ára. Það hefur komið fram hjá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki að skólinn hefur hreinlega ekki möguleika á að reka sig. Það er bara horft í að það eigi að draga saman seglin og þá fá menn minni fjármuni frá ríkinu. Þetta eltir skottið á sjálfu sér og gerir þeim skóla og auðvitað fleiri skólum sem standa í sömu sporum ekki kleift að rísa undir því hlutverki sem þeir eiga að gera. Svo er talað um sameiningar í framhaldi af þessu (Forseti hringir.) sem eru líka einhver útópía hjá hæstv. ráðherra.