144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:53]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Efnahagsleg úrlausnarefni heitir kafli 2.2 sem byrjar á bls. 10. Þar er talað um losun hafta, vinnumarkað, framleiðni og svo húsnæðismarkað. Það sem mér finnst svolítið vanta í þetta plagg varðar losun hafta, það er lítil klausa um þá aðgerð og við erum ekki búin að sjá frumvarpið, við erum búin að heyra eitthvað um hvernig það lítur út en hvernig það tekst til er eitt af þeim aðalatriðum sem meðal annars Seðlabankinn talar um varðandi stöðugleika með gengi krónunnar. Markmið hans er að halda verðstöðugleika á Íslandi. Samt er mjög lítið um málið hérna og í textanum stendur:

„Stjórnvöld vinna öllum árum að losun fjármagnshafta.“

Það stendur „vinna“ en er það ekki „róa“ öllum árum? Og svo á einum stað er ekki talað um fjármagnshöft heldur gjaldeyrishöft. Hæstv. ráðherra Bjarni Benediktsson talar alltaf um að þetta séu ekki gjaldeyrishöft heldur fjármagnshöft, réttilega. Mér finnst þessi texti svolítið losaralega og hroðvirknislega unninn. (Forseti hringir.) Mig langar að biðja þingmanninn um komment á það.