144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:58]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum góða ræðu. Mig langar til að spyrja hana, þótt það sé erfitt að lesa það út úr þessu, hvort hún hafi eitthvað getað séð því að við, minni hlutinn, höfum lýst yfir miklum áhyggjum af stöðu framhaldsskólanna á landsbyggðinni sem margir hverjir hafa orðið illa fyrir barðinu á 25 ára reglunni.

Síðan eru tvö brýn hagsmunamál landsbyggðarinnar í samgöngumálum, annars vegar samgöngur í formi vega og hins vegar upplýsingasamgöngur, almennileg háhraðanettenging. Sér þingmaðurinn að þessi áætlun boði aukna áherslu á þessa málaflokka eða á að halda áfram (Forseti hringir.) fjársveltinu í þessum mikilvægu málaflokkum fyrir landsbyggðina?