144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:07]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er nefnilega stóra málið að inni í þeirri jöfnu er velferðarkerfið. Það er ekki flóknara en það. Menn geta ekki aðgreint það, ef þeir panta norræna kjarasamningsumhverfið sisona og ætla að sleppa andlaginu á móti sem er velferðarkerfið. Þá skulu menn koma velferðarkerfinu á Íslandi á sama stað og er á Norðurlöndunum og þá skulum við tala um kjarasamninga eins og þeir eru unnir á Norðurlöndunum með alla þræði á sama stað, að menn séu að fikra sig áfram og halda þeim stöðugleika sem allir vilja auðvitað búa við. Þá verða menn líka að tala sömu tungum í þeim efnum. Menn gera það ekki í dag og þessi ríkisstjórn hefur ekki sýnt neina burði til þess að skilja mikilvægi þess að hafa jöfnuð í samfélaginu. Jöfnuður er undirstaða þess að samfélagið (Forseti hringir.) dafni og geti vaxið eðlilega eins og við sjáum á Norðurlöndunum og viljum sjá hér eins og við höfum oft sagt.