144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:10]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. þingflokksformanni Vinstri grænna, Svandísi Svavarsdóttur. Ég tel óeðlilegt að einum flokki sé mismunað með þessum hætti. Það er alltaf tekið tillit til funda sem þessa flokksstjórnarfundar við dagskrá þingstarfanna. Þess má geta að umræddur fundur var auðvitað ákveðinn samkvæmt starfsáætlun þingsins. Þinginu átti núna að vera lokið og við komin í fundahlé þannig að þetta er tillitsleysi við stjórnmálaflokk sem á fulltrúa á Alþingi Íslendinga.

Þá vil ég segja að við erum að ræða ríkisfjármálaáætlun. Við bjuggum til kerfi til að ræða fjárlagafrumvarpið með aðkomu allra ráðherra og mismunandi málaflokka. Núna lætur ráðherrann ekki svo lítið að vera hér, (Forseti hringir.) hvað þá aðrir þingmenn. Örfáir þingmenn eru skráðir í hús og þetta er furðulegt háttalag með jafn mikilvæga áætlun og ríkisfjármálaáætlun. (ÖS: Ég er mættur.)