144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:21]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Við erum komin hér á seinni part föstudagsins. Eins og upplýst hefur verið er verið að halda flokksþing stjórnmálaflokks sem á sæti á þingi. Sú hefð hefur alltaf verið að menn hafa fengið leyfi á meðan og nýjast er að fyrir viku lauk hæstv. forseti fundi fyrir kl. 17 vegna þess að Samfylkingin var með stóran fund það kvöld. Ég held að við eigum að reyna að halda í þessa hefð.

Við munum ekki ljúka þessari umræðu í kvöld og þess vegna er alveg eins gott að fara inn í mánudaginn. Jafnvel þó að ég sé tilbúinn með mína ræðu á eftir mæli ég eindregið með því að fundinum verði slitið. Þar að auki er sjómannadagurinn fram undan. Sjóarinn síkáti er kominn af stað í Grindavík og það eru víðar hafin hátíðarhöld sem við þingmenn viljum gjarnan fá að taka þátt í ef mögulegt er. Þetta er áskorun til hæstv. forseta um að ljúka fundinum núna og hefja hann svo hress og kát (Forseti hringir.) á mánudaginn.