144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:24]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Þó að hér vanti að vísu að minnsta kosti enn þá hinn vörpulega hæstv. fjármálaráðherra er ekki sanngjarnt að ræna hv. þingmenn Bjartrar framtíðar þeirri ánægju og upplifun að njóta hinnar heillandi nærveru hv. varaformanns fjárlaganefndar og 1/19 hluta þingliðs sjálfstæðismanna sem hér stendur í dyrunum og heitir Brynjar Níelsson, hv. þingmaður. Hafi menn haldið að ég væri að gera gaman með þessum orðum mega menn halda það en þannig að öllu gamni sé sleppt er ekki skemmtilegt fyrir þingið að haga sér svona, að sýna beina ósanngirni, að ég segi ekki fautaskap í garð þingmanna Bjartrar framtíðar fyrir utan þær ástæður allar sem ættu að vera til að halda ekki þingmönnum fram undir kvöld (Forseti hringir.) á föstudegi fyrir sjómannadagshelgina.