144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:25]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Í mínum augum snýst þetta um jafnræði. Er það þannig að það á ekki að ganga yfir Bjarta framtíð sem aðrir stjórnmálaflokkar fá að njóta? Ég veit mjög gerla sem fyrrverandi formaður stjórnmálaflokks að það hefur alltaf verið tekið tillit til þess þegar stjórnmálaflokkar halda stóra fundi í æðstu stofnunum sinna flokka og þá hefur þingið hagað sínu fundahaldi með tilliti til þess. Ég nefndi Sjálfstæðisflokkinn. Það hefur margsinnis verið gert þegar Sjálfstæðisflokkurinn heldur stóra fundi að menn hafa frestað fundum, jafnvel fellt niður fundi í heilan dag. Það hefur gerst með Samfylkinguna, og hvers vegna á Björt framtíð ekki að njóta þess? Hvað segir fyrrverandi formaður Lögmannafélagsins um þetta (Gripið fram í.) sem manna glæsilegast hefur fært rök fyrir því að grundvallarreglan í mannlegum samskiptum, og ekki síst á Alþingi Íslendinga, eigi að vera jafnræði? Hvað veldur því að Björt framtíð fær ekki að njóta jafnræðis? Hvað segir hv. þm. Brynjar Níelsson um það eða skortir hann orð til að skýra þennan gerning?