144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:29]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Margir þingmenn hafa kvatt sér hljóðs um fundarstjórn forseta og margir sett mál sitt fram í gamansömum tón en undir niðri kraumar alvaran. Ég beini því til hæstv. forseta þingsins að taka óskir okkar alvarlega. Við erum fulltrúar stjórnarandstöðunnar á Alþingi og förum þess á leit að hlé verði gert á þessari umræðu fram yfir helgi til að virða óskir eins stjórnmálaflokks sem heldur núna sitt æðsta þing. Þetta hefur alltaf verið gert og við leggjum áherslu á að þetta grundvallarprinsipp verði virt.

Síðan vil ég spyrja: Til hvers eru menn að lengja þessa umræðu? Jú, menn telja að það gangi þá fyrr á hana og (Forseti hringir.) hún styttist fyrir vikið inn í næstu viku. Það er mikill misskilningur. Það mun ekki gerast. [Kliður í þingsal.] Þetta verður til að lengja umræðuna, en það er ekki á þeirri forsendu sem ég ber fram þessa ósk við hæstv. forseta heldur til að virða þá grundvallarreglu sem við höfum gert fram til þessa.