144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:34]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég hafði tekið það fram að ég skoraðist ekki undan að halda þá ræðu sem ég hafði óskað eftir að fá að flytja. Málið er mikilvægt, við erum að ræða þingsályktunartillögu um ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016–2019. Þarna er verið að stíga ákveðið skref sem er fyrsti hluti fjárlagaferlis sem ég hef fagnað hér í ræðum áður á þinginu, að menn hafi einmitt stigið það skref að koma inn á Alþingi með þingsályktunartillögu um ríkisfjármálaáætlun sem síðan verður forsenda fjárlagagerðar. Hún kemur frekar seint inn í þetta skiptið og auðvitað er þetta ákveðið þróunarverkefni þannig að við eigum sjálfsagt eftir að sjá þetta þróast. Það er gagnrýnt, m.a. af minni hlutanum í hv. fjárlaganefnd, að þarna sé kannski aðeins verið að setja forsendurnar sem eru inni í fjárlagafrumvarpinu á hverju hausti en ekki farið í frekari greiningar eða vinnu við að reyna að gera áætlunina sem vandaðasta.

Ég hef líka talað fyrir því í þinginu á þessu ári og raunar áður að einmitt það sem þarf að gerast á Alþingi Íslendinga er að menn komi með fleiri langtímaáætlanir. Það þýðir ekki að þær séu endanlegar og óumbreytilegar heldur þarf að vinna eftir stefnumótun sem fær umfjöllun frá öllum stjórnmálaflokkum á hv. Alþingi. Dæmi um þetta er samgönguáætlun sem því miður hefur ekki verið í gildi síðustu tvö árin, þ.e. frá því að þessi ríkisstjórn tók við, og svo kom inn í þingið á síðustu dögum þingsins, bara í síðustu viku, stefnumótun til fjögurra ára í samgöngumálum og á að hespa af hér á tveimur vikum eða svo.

Hið sama gildir um heilbrigðisáætlun sem lögum samkvæmt á að leggja fram í þinginu. Menn hafa lagt fram tíu ára áætlun. Hún var runnin út. Við í síðustu ríkisstjórn komum með hana, að vísu frekar seint þá, við skulum alveg játa það, en síðan hefur ekkert gerst og það er verið að vinna að henni, að því er ég best veit. Það er vont að slíkar áætlanir og eru forsendur fjárlagagerðar skuli ekki koma inn.

Þriðja dæmið sem ég get nefnt hér, án þess að geta talið upp allar langtímaáætlanir eða stefnumótanir, er rammaáætlunin sem varðar virkjunarkosti og hvernig farið skuli með ákvarðanatöku, hvort eigi að virkja eða friða ákveðin fljót eða ákveðin svæði. Það er búið að takast mjög harkalega á um hvernig skuli umgangast slíka áætlun og hvernig við getum varðveitt ferlið við slíka áætlun til að reyna að hindra að hér sé endalaust ágreiningur um þær.

Fjórða er ný áætlun sem var samþykkt hér, vinnuform gagnvart kerfisáætlun, þ.e. með hvaða hætti ætti að leggja raflínur um landið. Það skiptir mjög miklu máli að einmitt sú áætlun komi fyrir Alþingi og það náðist í gegn, eftir töluverða umræðu í þinginu og mikla andstöðu stjórnarandstöðunnar við upphaflega frumvarpið, að breyta forminu þannig að það verði tryggt að slík áætlun komi fyrir Alþingi þannig að menn geti farið í stefnumótandi vinnu áður en farið er út í framkvæmdir.

Það sem hins vegar hefur vantað og vantar mjög tilfinnanlega er menntastefna og atvinnustefna. Núna er verið að vinna að því að reyna að móta menntastefnu er mér sagt. Ég hélt að hvítbók hæstv. menntamálaráðherra ætti að vera stefnuplagg hæstv. ráðherra sem væri þá til viðbótar við þau lög sem eru í gildi í landinu um íslenskar menntastofnanir og skólahald. Síðan er í gangi alls kyns vinna úti um allt land og framkvæmd sem stangast algjörlega á við þessa hvítbók, er að minnsta kosti ekki í neinu beinu samhengi og er sótt inn í að túlka lög eins vítt og mögulegt er til að geta gert ákveðnar breytingar, hluti sem hafa valdið óróa, óöryggi og óánægju úti um allt land. Þetta eru hlutir sem hefði átt að taka sem grundvallarstefnumótun í byrjun, einmitt í málaflokki sem þjóðin vill standa saman um, menntamálin.

Hið sama gildir í rauninni um heilbrigðismálin. Það er engin pólitísk nauðsyn eða ástæða til að halda þessum málum í ágreiningi. Við eigum að geta varið þessa málaflokka fyrir stórum pólitískum átökum en því miður virðist þessi ríkisstjórn vera svo átakasækin að það virðist vera sérstök ásókn í að búa til átök um málið gagnstætt því sem hæstv. ríkisstjórn hefur sagt í stjórnarsáttmála sínum.

Það er auðvitað fróðlegt að skoða þetta plagg og það verður, eins og ég segi, að virða það við þá sem leggja það fram að þetta er fyrsta tilraun til að komast inn í þetta ferli. Það veldur vonbrigðum þegar maður skoðar umfjöllunina um plaggið í hv. fjárlaganefnd að sjá hvernig í veröldinni að minnsta kosti ákveðnir hlutir gátu sloppið í gegn án þess að gerðar væru athugasemdir við þá. Þar er það sem ég hefði kannski átt að byrja ræðu mína á. Hvernig getur birst hér tillaga til þingsályktunar um ríkisfjármálaáætlun fyrir fjögur ár þar sem stendur beinum orðum að stefnt sé að kaupmáttaraukningu ríkisstarfsmanna um 2% á ári, þ.e. að tekjur þeirra aukist um 2% umfram verðbólgu, en almannatryggingar, þ.e. lífeyrisgreiðslur og bótagreiðslur, skuli vera 1%, helmingi minna? Hvernig gat þetta gerst? Hvernig gat þetta líka sloppið fram hjá meiri hluta fjárlaganefndar sem gerði ekki athugasemd við þetta í nefndaráliti?

Á sama tíma er ætlast til að það sé einhver trúverðugleiki á bak við gagnrýni í kjarasamningum á að bætur og almannatryggingar, lífeyrisgreiðslur, hækki í samræmi við þá kjarasamninga sem verið er að gera. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra segir að við ráðum ekki við það, það sé of dýrt. Á sama tíma koma aðrir og segja: Þið megið ekki vera svo óþolinmóð, það á eftir að fylgja þessu eftir með breytingum á lífeyrisgreiðslum.

Hér er plagg með stefnumótun í fjögur ár sem segir að það eigi að vera helmingi minni hækkun hjá almannatryggingahópnum, þ.e. þeim sem eru með lífeyri og bótagreiðslur, en hjá almennum launþegum hjá ríkinu. Það eru svona hlutir sem einmitt er gott að fá inn í tillögur til að geta rætt þær en gríðarleg vonbrigði að sjá að hv. fjárlaganefnd skuli ekki hafa leiðrétt þetta, skuli ekki hafa sett hnefann í borðið og sagt: Svona gerum við ekki. Þetta er í andstöðu við það sem þjóðin vill.

Annað forvitnilegt þegar maður fær svona plagg — hér varð umræða við hv. formann fjárlaganefndar þar sem kom fram mjög óvænt að hér hefðu verið kosningar 2013. Við hefðum aldrei áttað okkur á því nema af því að hv. þingmaður nefndi það í fyrsta skipti í dag. Í þessu plaggi kemur mjög vel fram og hefur raunar komið fram í mörgum sambærilegum plöggum hvernig breytingarnar urðu á síðasta kjörtímabili, hvar hlutirnir byrjuðu. Ef við tökum til dæmis minnkandi atvinnuleysi sem varð sem betur fer skammvinnt á Íslandi minnkar atvinnuleysi mjög hratt frá árinu 2010. Þetta er á bls. 9 í þessu plaggi. Hagvöxturinn byrjar líka frá 2010. Kaupmáttaraukningin er líka frá þessum tíma. Síðan höfum við fengið staðfestingu á því sem betur fer að jöfnuður jókst á þessu tímabili, í tíð síðustu ríkisstjórnar, þannig að það er gott að fá þetta staðfest líka í forsendum ríkisfjármálaáætlunar fyrir árin 2016–2019.

Að þessu sögðu skulum við ekki gera lítið úr því að núverandi ástand í samfélaginu býður upp á mjög marga jákvæða þætti. Þá á ég við að það hefur verið gríðarlegur vöxtur í ferðaþjónustu. Ferðaþjónustan er að verða sá atvinnuvegur sem skapar mestan gjaldeyri. Sjávarútvegurinn hefur haldið sinni stöðu í gegnum hrunið og þar hjálpaði mjög mikið að gengið féll á krónunni, nokkuð sem maður ætlaðist þá til að sjávarútvegurinn tæki þátt í vegna bættrar afkomu sinnar, þ.e. að létta hlut þeirra sem misstu 20–25% af kaupmætti sínum við hrunið, almennu launamannanna. Stóriðnaðurinn hefur líka lifað bærilega í gegnum hrunið. Þrátt fyrir að þar hafi orðið verðlækkanir tímabundið er staðan hvað varðar þessar greinar mjög góð. Þetta skapar forsendur til að byggja upp að nýju, en það er ekki hægt að sjá að það eigi að gera í þessu. Menn segja: Því er þá mætt með skattalækkunum og það kemur fram í kjarasamningum ef menn ætla að minnka tekjurnar. Maður fær svona röksemdafærslu eins og er þekkt orðin hjá últra hægri flokkum í Evrópu, popúlistaflokkum, sem stilla alltaf upp þeirri mynd að með því að lækka skatta geti maður aukið þjónustu. Þetta hefur hvergi tekist. Menn geta rætt um með hvaða formi skattar eru lagðir á o.s.frv., menn geta hjálpað til með því að reyna að leiðrétta hvernig vörugjöld eru og annað slíkt, en það er augljóst á þessari ríkisfjármálaáætlun að það á að minnka tekjurnar og það mun koma niður á þjónustunni jafnvel þó að menn hafi fögur orð um hana. Það kemur raunar líka fram í áætluninni að ef kaupmáttur fer yfir 2% og launakostnaðurinn verður meiri en gert er ráð fyrir hér þurfi að mæta því með niðurskurði. Það kemur beinlínis fram og þá fer maður að spyrja sig: Var þetta líka eitthvað sem stjórnarmeirihlutinn hafði lagt áherslu á? Já, svo virðist vera.

Síðan er mjög fróðlegt að skoða líka þau verkefni sem verið er að vinna og þau sem munu lifa hvað varðar fjárfestingar inn í næsta tímabil. Obbinn af þeim var þegar kominn í gang. Við skulum taka fangelsið á Hólmsheiði. Við getum tekið hjúkrunarheimilin sem verið er að borga leiguna fyrir þar sem sveitarfélögin og ríkið sameinuðust um að bæta aðstöðu þeirra sem búa á hjúkrunarheimilum með gríðarlegum fjárfestingum í þeim geira. Þessu er verið að fylgja eftir núna í þessari áætlun góðu heilli, við skulum ekki gera lítið úr því. Menn telja sér til ágætis breytingarnar á heilbrigðiskerfinu — það er alveg hárrétt sem hér hefur komið fram að það var gengið hart að heilbrigðiskerfinu á síðasta kjörtímabili. Ég hef sjálfur sagt það sem fyrrverandi heilbrigðisráðherra ítrekað að við gerðum okkur grein fyrir því að við vorum komin fram á brúnina og of langt árið 2012 og áttum þess vegna ekki neina von á því að fyrstu fjárlög nýrrar ríkisstjórnar yrðu með frekari niðurskurði, en sem betur fer tókst að reka það til baka. Í aukningunum sem menn eru að monta sig af voru til dæmis gjaldfrjálsar tannlækningar fyrir börn, lyfjafrumvarpið sem að vísu kostaði ekki mjög mikið og þar var jafnlaunaátakið sem var tilraun til að jafna stöðu kvennastétta í landinu gagnvart öðrum stéttum í framhaldi af mikilli umræðu um launamisréttið í landinu. Þetta nemur nokkrum milljörðum og sem betur fer þrátt fyrir hrakspár, vont umtal og neikvætt umtal um þessar aðgerðir þegar ný ríkisstjórn tók við breytti hún þessu ekki. Ber að þakka að það skuli ekki hafa verið reynt.

Það er fagnaðarefni að menn segja til dæmis í samkomulagi sem gert var við læknana að þá hafi verið gerður samningur um að hér skyldu menn stefna að öflugu heilbrigðiskerfi. Því miður vinna verkföllin þar í þveröfuga átt. Ástandið á spítölunum og virðingarleysið við starfsmenn eins og lífeindafræðinga og geislafræðinga sem hafa verið lengst í verkfalli, allt upp í níu vikur, er algjört en burt séð frá því hafa menn sett sér að reyna að ná hér upp heilbrigðiskerfi sem stæðist samanburð við það besta á Norðurlöndunum. Þá höfum við sagt: Já, gott og vel, við styðjum það heils hugar að stefna að því markmiði en þá þurfum við líka að fara út í að hækka hlutfallið sem fer í heilbrigðiskerfið af landsframleiðslunni og þar höfum við talað um að það þyrfti að fara upp í 9,6–10% af landsframleiðslu. Við erum að tala um tugmilljarða hækkun bara við að standa við loforðið sem þessi ríkisstjórn hefur gefið — en það bólar ekkert á efndum í þessari ríkisfjármálaáætlun. Það er mikið áhyggjuefni að það er ekkert samræmi á milli þess sem hér birtist og þeirra samninga sem hafa verið gerðir á öðrum stöðum.

Hið sama gildir um nýja Landspítalann sem rúmast ekki inni í áætluninni en hefði þurft að vera þar miðað við þau loforð sem þar voru gefin, a.m.k. sýnt fram á með hvaða hætti eigi að fara í sjálfan meðferðarkjarnann sem er stærsta og mikilvægasta byggingin.

Á sama tíma og þetta er gert, og það er það sem maður skilur ekki eiginlega þegar menn eru að lofa slíku velferðarkerfi, má segja að menn séu að afsala sér tekjum, þ.e. menn hæla sér af því að hafa lækkað tekjuskatt. Við erum að tala um 0,3–0,35% og það geta allir reiknað út hvað þetta er mikið á þá sem eru með 300–400 þús. kr. eða þar um kring. Þetta skiptir ekki sköpum í heimilisbókhaldinu, því miður, og minnir á þær aðgerðir sem fylgdu hjá fyrrverandi ríkisstjórn eftir kjarasamningana í desember 2013 þegar menn komu inn með lækkun upp á 1 kr. í sköttum á bensínlítra. Við getum ekki fundið með nokkru móti að það hafi nokkurn tímann skilað sér í lækkun bensínverðs enda hefur það sveiflast gríðarlega síðan þetta var gert. Rauðvínsflaskan sem kostar um 3 þús. kr. lækkaði um 20 kr. Þetta var innlegg ríkisstjórnarinnar í kjarasamningunum síðast þegar átti að stuðla að stöðugleika.

En svona er ástandið. Menn hæla sér af því að hafa varið ákveðna hópa. Það hefur komið mjög vel fram í umræðunni hverjir hafa verið varðir og hverjir eru látnir borga. Samtímis og skattar eru lækkaðir koma auknar álögur, aukin gjaldtaka hér og þar og allt yfir í það að skólagjöld hafa verið hækkuð án þess að skila sér til skólans. Við höfum verið með hækkun á Ríkisútvarpið án þess að það skili sér. Það er að vísu búið að leiðrétta það núna inn í framtíðina í einhvern tíma en ég ætla ekki að fara ítarlega yfir það hér.

Ég nefndi áðan fjárfestingarnar. Því ber að fagna að í áætlunum inn í framtíðina eru fjárfestingar á sviði vísinda, rannsókna og tækniþróunarmála. Við styðjum það heils hugar. Það var í fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar, var hent út af borðinu en er komið aftur inn í áætlunina núna. Menn eru að tala um býsna stórar tölur, við erum að tala um veltu upp á 680 milljarða hjá ríkissjóði, og þegar við erum að tala um 1% aðhaldsmarkmið eins og hér er sett inn vegur það töluvert í sambandi við rekstur. Á sama tíma segjast menn ætla að leggja inn á hverju ári stóraukin framlög til almannatrygginga og tala um 6–8 milljarða. Það er svipuð upphæð. Við skulum átta okkur á því að því miður stefnir allt í það sama hjá þessari ríkisstjórn, að í mjög verulega lagfærðu umhverfi efnahagslega og atvinnulega á ekki að útdeila þeim peningum til þeirra sem mest þurfa á því að halda heldur til þeirra sem mest hafa fyrir. Þetta hefur gengið svo langt að meira að segja hæstv. fjármálaráðherra hefur leyft sér að hafa efasemdir um það hvort við höfum gengið of langt í jöfnuði í þessu samfélagi. Það er gríðarlega undarleg yfirlýsing og maður verður að hafa áhyggjur af slíkum yfirlýsingum. Það er bakgrunnurinn í þeirri ríkisfjármálaáætlun sem hér er lagt upp með.

Ég hafði miklar áhyggjur af því að frumútgjöld án óreglulegra liða af landsframleiðslu lækka samkvæmt þessari ríkisfjármálaáætlun líka og fara þá úr 24,4% árið 2015 niður í 23,4% árið 2019. Hvað eru þessi frumútgjöld? Það er þjónusta íslenska ríkisins. Obbinn af þessum útgjöldum er menntamál, heilbrigðismál og tryggingar. Það eru millifærslurnar, það eru tilfærslurnar eins og það heitir, og nú er verið að boða þær enn frekar í húsnæðiskerfinu. Samt ætla menn að setja sér það markmið að geta lækkað þetta og þá verður maður að fá leyfi til að spyrja: Á hverjum mun það bitna og hverjir koma þá til með að greiða það að lokum?

Mörgum spurningum er líka ósvarað sem er kannski að mörgu leyti eðlilegt. Ég ætla ekki að gera lítið úr því að það er ekki hægt að svara öllu í þessari ríkisfjármálaáætlun og ég tek aftur fram að ég fagna því að hún er lögð fram. Hún skapar grundvöll til að ræða málin. Skoðum til dæmis Íbúðalánasjóð, hér er ekki gert ráð fyrir neinum viðbótarútgjöldum vegna Íbúðalánasjóðs sem er þegar í miklum erfiðleikum og fær ekki skýr svör um hvað bíði eða hvað taki við. Það eru 1,3 milljarðar á árinu 2016 og síðan ekkert eftir það. Það væri ótrúlegt ef hægt væri að sleppa með þetta, en þetta er dæmi um hluti sem skýrast væntanlega þegar húsnæðisfrumvörpin koma fram, þau sem beðið hefur verið í tvö ár nánast, bæði varðandi húsnæðisbætur og eins stofnstyrki eða vaxtaniðurgreiðslur til að hjálpa fólki til að eignast húsnæði eða þak yfir höfuðið.

Í heildina er gott að fá þessa áætlun. Þær þyrftu að vera fleiri en það sem hér er lagt fram (Forseti hringir.) hvað varðar sérstaklega reksturinn vekur manni mikinn ugg þó að ekki sé öll sundurliðunin birt í þessari áætlun.