144. löggjafarþing — 121. fundur,  7. júní 2015.

gjaldeyrismál.

785. mál
[22:13]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Okkur í efnahags- og viðskiptanefnd var gert viðvart um það eftir hádegi í dag að mat Seðlabankans væri að þörf væri á því að herða reglur sem geta að óbreyttu gefið slitabúum möguleika á því að reyna á þanþol gildandi laga um gjaldeyrishöft. Við höfum fengið upplýsingar um málið. Það er niðurstaða okkar í Samfylkingunni að standa að flutningi málsins í samræmi við þá meginstefnu sem við mörkuðum og ég gerði grein fyrir úr þessum ræðustól þegar ég mælti fyrir frumvarpi því sem varð að lögum nr. 127/2011, um gjaldeyrismál. Þegar við lögfestum heimildir Seðlabankans til að setja reglur um gjaldeyrismál gerði ég þinginu viðvart um það að til þess kynni að koma að þingið þyrfti oftar að koma að því að breyta þeim reglum í samræmi við tillögur Seðlabankans. Við viljum þess vegna axla ábyrgð með stjórnarmeirihlutanum á þessum tillögum og treystum mati Seðlabankans á þeirri nauðsyn sem að baki liggur.

Það er vert að hafa í huga stöðuna sem við búum við nú og gerir okkur sem þjóð kleift að taka á haftavandanum og þeim vanda sem greiðsluútflæðishættan úr hinum föllnu fjármálafyrirtækjum skapar. Ástæðan fyrir því að við getum tekið á þeim vanda er sú lagabreyting sem gerð var hér 12. mars árið 2012 þegar eignir hinna föllnu fjármálafyrirtækja voru að öllu leyti felldar undir gjaldeyrishöftin. Því miður var þá ekki samstaða um málið í þingsal eins og er nú og þeir sem þá voru í stjórnarandstöðu greiddu frumvarpinu ekki atkvæði; sjálfstæðismenn greiddu meira að segja atkvæði á móti því. Það frumvarp tryggði íslenskri þjóð samningsstöðu gagnvart slitabúunum og tryggði að við gætum gætt almannahagsmuna. Ég vona að sú ríkisstjórn sem nú situr fari vel með þá samningsstöðu.

Við höfum ekki til fulls yfirsýn yfir það hvað ríkisstjórnin hyggst kynna á morgun. Mér finnst það ámælisvert að ríkisstjórnin skuli ekki hafa kallað stjórnarandstöðuna að því borði. Frá okkar hendi hefur alltaf verið útrétt hönd til samstarfs um þetta mikla þjóðarhagsmunamál. Mér finnst heldur ekki bragur á því fyrir hönd Alþingis að ríkisstjórnin hyggist kynna tillögur opinberlega á morgun áður en þær hafa fyrst verið kynntar á Alþingi Íslendinga. Ég held að við öll í þessum sal hljótum að geta tekið undir þá meginkröfu að þjóðþinginu sé sýnd sú virðing að ríkisstjórnin komi með þær mikilvægu tillögur fyrst inn í þennan þingsal.

Við í Samfylkingunni erum tilbúin að vinna áfram sem hingað til að úrlausn þessara mikilvægu mála með þjóðarhag að leiðarljósi. Við munum styðja ríkisstjórnina taki hún skynsamleg skref til þess að nýta þá samingsstöðu sem við erum mjög stolt yfir að hafa skapað með lagasetningunni 12. mars 2012.