144. löggjafarþing — 121. fundur,  7. júní 2015.

gjaldeyrismál.

785. mál
[22:27]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Eins og aðrir þeir sem hér hafa talað tel ég að það sé ákaflega mikilvægt að það takist sem best samstaða með stjórn og stjórnarandstöðu í kringum þær aðgerðir sem þarf að ráðast í til þess að aflétta gjaldeyrishöftum. Ég tel að það sé vandasamasta verkefnið sem Alþingi og framkvæmdarvaldið hafa hugsanlega staðið frammi fyrir frá lýðveldisstofnun. Sannarlega vildi ég geta sagt það að ég mundi styðja heils hugar þau frumvörp sem við eigum eftir að sjá. Ég vonast til þess að geta gert það.

En ég er í þeirri undarlegu stöðu að ég hef ekkert fengið að sjá af þeim. Enginn hefur spurt þingið. Það hefur ekki einu sinni verið kynnt fyrir samráðsnefndinni. Nú heyri ég hér í dag að það á að kynna þetta fyrir fjölmiðlum áður en það verður kynnt fyrir þinginu. Látum það nú vera.

Það sem ég velti fyrir mér er þetta sérkennilega augnablik í þingsögunni. Þetta er í fyrsta skipti sem Alþingi er kvatt saman á sunnudegi. Það hefur aldrei gerst á lýðveldistímanum fyrr. Það hlýtur að vera eitthvað mjög mikilvægt. Jú, það er þetta frumvarp, en ríkisstjórnin er búin að vera mánuðum saman að undirbúa þetta. Hvers vegna er þá sem nauðsynlegt er að gera þetta núna í kvöld? Af hverju var það ekki gert í síðustu viku þegar þingið sat hér dag eftir dag til klukkan tólf? Og nú allt í einu dettur skýringin fram. Hún kemur af munni hv. þingmanns sem talaði hér áðan og var á fundi í efnahags- og skattanefnd. Og hver er skýringin?

Bara til þess að ég fái það algerlega á hreint þá spyr ég hv. þingmann: Er það svo að Seðlabankinn hafi gefið það sem eina af skýringunum fyrir nauðsyn þess að það þurfti að ráðast í þetta eftir hádegið í dag, samanber það sem formaður Samfylkingarinnar sagði, að það er leki úr herbúðum ríkisstjórnarinnar? Er það þess vegna sem þingið er kallað saman á sunnudagskvöldi? Mig langar bara til þess að fá þetta á hreint vegna þess að það var sagt hér þannig að þingið skilji þá við hvað er að fást.