144. löggjafarþing — 121. fundur,  7. júní 2015.

gjaldeyrismál.

785. mál
[22:31]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir hreinskilnina. Ég tel að það sé algjörlega hárrétt mat hjá honum að þingið hafi þurft að fá að heyra þetta. Ég ítreka það sem ég hef sagt hér áður, ég tel mikilvægt að við náum samstöðu um þetta mál. Þetta er flókið mál, það er lagatorf sem hér liggur fyrir, og ég hef hvorki forsendur til að skilja það til hlítar né tóm eða tíma til að brjóta það til mergjar. Ég treysti ríkisstjórninni í þessum málum. Ég treysti hv. þm. Frosta fyrir þessu líka. Þeir sem hafa komið að málinu telja bersýnilega að þetta sé mikilvægt og vegna hagsmuna Íslands ætla ég að styðja málið eins og það var lagt hér fyrir.

Hins vegar er algjörlega nauðsynlegt að menn hafi á hreinu að það var nauðsynlegt að kalla þingið saman í fyrsta skipti í lýðveldissögunni á sunnudagskvöldi vegna þess að ríkisstjórnin heldur ekki upplýsingum. Þess vegna þarf að kalla þingið saman, vegna þess að frá ríkisstjórninni leka upplýsingar sem geta skaðað hagsmuni Íslands. Þarf ekki hæstv. forsætisráðherra að svara því?

Hins vegar verð ég að taka undir að það má segja að með þessu sé heldur farin að gildna torfan undir DV. DV hefur að minnsta kosti ritað sig inn í Íslandssöguna — út af því er í fyrsta skipti kvatt til þingfundar á sunnudegi.