144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

tillögur um afnám gjaldeyrishafta.

[15:03]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin hefur nú kynnt tillögur sem er ætlað að greiða fyrir losun gjaldeyrishafta og ég vil af því tilefni segja að þær líta betur út en maður þorði að vona við fyrstu sýn. Við í Samfylkingunni könnumst við ýmsa þætti þar. Við lögðum til fyrir kosningarnar 2013 að sú samningsstaða sem við sköpuðum með því að fella erlendar eignir þrotabúanna undir gjaldeyrishöft árið 2012 yrði nýtt til þess að skapa samfélaginu svigrúm til að lækka skuldir ríkissjóðs. Ég er ánægður með að sjá þennan grundvallarþátt virtan í þeim hugmyndum sem kynntar hafa verið í dag.

Það er líka þannig að við sjáum að það hefur greinilega verið reynt að byggja á þeirri vinnu sem unnin var hér á síðasta kjörtímabili í frekari úrvinnslu þessa máls og svo hefur mörgu verið bætt við á síðustu missirum líka.

Ég vil því spyrja hæstv. fjármálaráðherra af þessu tilefni: Er hann ekki sammála mér um það að sú ákvörðun sem tekin var hér og sú stefna sem mörkuð var af þáverandi ríkisstjórn í marsmánuði 2012 að fella erlendar eignir þrotabúa bankanna undir gjaldeyrishöftin hafi verið skynsamleg og hafi verið mikilvæg fyrir þjóðarhagsmuni? Er hann ekki sammála mér um það að sú ákvörðun hafi í reynd skapað forsendurnar fyrir því að hægt sé að spila úr þessari erfiðu stöðu með jafn farsælum hætti og mér sýnist að hafi verið gert hér með tillögugerðinni í dag?