144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

nýting tekna af stöðugleikaskatti.

[15:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er rétt að skattlagning eða stöðugleikaframlag getur skilað verulega háum fjárhæðum enda er í frumvarpinu kveðið á um það í sérstakri grein hvernig eigi með það að fara, nefnilega að greiða upp skuldir. Síðan ræðst það að verulegu leyti af því í hvaða samsetningu nauðasamninga, stöðugleikaskatts og annarra ráðstafana spilast úr þessu, þ.e. hvort allir gömlu bankarnir fari undir skattinn og nýti sér frádráttarliði eða hvort þeir fari jafnvel allir í nauðasamninga og að greiða stöðugleikaframlag. Þetta hefur áhrif á það hversu hátt framlagið til ríkisins verður á endanum en það breytir ekki hinu, að í frumvarpinu er kveðið á um að fjármunina skuli nýta til lækkunar á skuldum.

Við skulum líka hafa í huga að það er ekki hlaupið að því í sjálfu sér að finna skuldir sem er hægt og raunsætt að greiða upp fyrir þær fjárhæðir sem hér eru undir án þess að það geti valdið óæskilegum áhrifum án frekari ráðstafana. Þess vegna er gert ráð fyrir því að í fjárlagafrumvarpi hvers árs verði farið yfir það sérstaklega með hvaða hætti eigi að greiða upp skuldir, hvaða skuldir og hvernig og að Seðlabankinn hafi aðkomu til að meta áhrifin á peningamagn í umferð. Það er alveg rétt að það getur skipt sköpum hvernig þessum fjármunum er ráðstafað. Svigrúmið sem skapast til lengri tíma liggur fyrst og fremst í hinum fallandi skuldum ríkisins og þar af leiðandi í minni greiðslubyrði vaxta. En þar getur engu að síður verið um að ræða fjárhæðir sem hlaupa á tugum milljarða, jafnvel öðrum hvorum megin við 30 milljarða, og þegar því svigrúmi verður ráðstafað (Forseti hringir.) í framtíðinni þarf að sjálfsögðu að horfa til þess að menn séu ekki að auka útgjöld á þeim tíma sem hagkerfið þolir það ekki.