144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

nýting tekna af stöðugleikaskatti.

[15:14]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Mér heyrist við hæstv. fjármálaráðherra vera á sömu blaðsíðunni með þetta. Við í Bjartri framtíð lögðum mikla áherslu á það, það var ófrávíkjanlegur hluti af okkar málflutningi, að bankaskatturinn sem auðvitað var lagður á búin, sama andlag skatts og hér er verið að leggja á, yrði notaður til að greiða niður opinberar skuldir. Hið sama gerum við hér, allir verða að gera sér grein fyrir því að þessi peningur er ekki einhvers konar fjársjóður sem menn geta notað til að demba út í hagkerfið til alls konar verkefna vegna þess að þá væru menn bara að gera nákvæmlega sömu mistök og menn gerðu 2005 þegar þessir peningar komu inn í íslenskt hagkerfi og urðu ásamt mörgu öðru orsakavaldur að öllu því sem hér gerðist. Einmitt út af því er rík ástæða til að leggja áherslu á þetta atriði á þessum tímapunkti. Þegar þessir peningar fara mögulega að koma þarna inn, (Forseti hringir.) ef þetta heppnast allt saman, inn á reikning í Seðlabankanum, segjum síðari hluta árs 2016, í aðdraganda kosninga, er þá ekki hæstv. fjármálaráðherra jafn vongóður og ég um það að það muni nást að halda aftur af öllum á sviði stjórnmálanna um það að líta á þetta sem einhvers konar kosningasjóð?