144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

aðhald í efnahagsaðgerðum.

[15:22]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég heyri ekkert í svari hæstv. ráðherra sem ég er beinlínis ósammála. Það er eitt við orðræðuna sem á sér stað núna, og þá álasa ég ekkert hæstv. ráðherra frekar en öðrum, og það er að ég óttast að fólk heyri einfaldlega rosalegar upphæðir og að það sé einhvern tímann hægt að nýta eitthvert svigrúm til uppbyggingar í landinu. Það er gott og blessað og ég er sammála því efnislega til lengri tíma en mér finnst ofboðsleg mikilvægt að við sjáum ekki fyrir okkur 450–850 milljarða sem er hægt að nýta strax, eða reyndar í bráð ef út í það er farið, miklu frekar að nýta þetta fjármagn til að leyfa efnahagnum að rétta sig af þannig að hann geti fjármagnað þessa hluti á eigin hefðbundnu forsendum ef ég skil hæstv. ráðherra rétt.

Það sem ég er líka að velta fyrir mér er hvaða þátt þessi nýting eða ónýting eða vannýting, eða hvað á maður að segja, eigi í lögmæti aðgerðarinnar, þ.e. hvaða áhrif það getur haft á málflutning slitabúanna að því gefnu að þau fari að rífast á móti þessu.