144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

áætluð hækkun bóta og launa í ríkisfjármálaáætlun.

[15:29]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að við erum að fá fram frumvörp um afnám hafta og vona að okkur takist í sameiningu að leiða það í farsælan farveg til enda. Ástæðan fyrir því að ég kem hér upp er að við erum að fjalla um, höfum verið að því síðustu daga og munum áfram í dag fjalla um ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016–2019. Eflaust verða einhverjar breytingar á þeirri ríkisfjármálaáætlun en mig langar að spyrja hæstv. ráðherra beint: Er það með vitund og vilja hæstv félags- og húsnæðismálaráðherra að í ríkisfjármálaáætlun þessarar ríkisstjórnar til næstu fjögurra ára er gert ráð fyrir 2% kaupmáttaraukningu á ríkisstarfsmenn, þ.e. hækkun umfram verðbólgu, en aðeins 1% í almannatryggingum og bótagreiðslum?

Þetta stingur mjög í augu. Við verðum að átta okkur á því að við erum að fara að samþykkja þessa áætlun, ef ekki á morgun þá einhvern tímann mjög fljótlega. Þarna er um að ræða nýtt form varðandi það að vinna með ríkisfjármálaáætlun og maður ætlast til að menn vandi sig, slái ekki fram hlutum og segi sem svo: Ja, við getum ekki tekið mark á því, við ætlum að endurskoða þetta í sumar.

Það er afdrifarík ályktun í ríkisfjármálum að segja að það eigi að vera tvöfalt meiri hækkun almennt hjá ríkisstarfsmönnum en lífeyrisþegum og bótaþegum.

Ég veit að hæstv. ráðherra nefndi að það ætti að skoða í sumar hvernig hækkunin yrði á bótum miðað við launavísitölu og framfærsluvísitölu. Ég hef áður bent á það sem fyrrverandi ráðherra málaflokksins, og við höfum rætt það ítrekað, að vandinn við þau lög og þær reglur er að þau eru alltaf samþykkt fyrir fram. Það vantar leiðréttinguna eftir á. Á tímabili voru til dæmis launahækkanir mun meiri en gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. En sú leiðrétting kemur aldrei og þar af leiðandi dragast lífeyrisþegar aftur úr.

Það hefur verið reiknað í ráðuneytinu að þessi skekkja væri þegar orðin 8–10% (Forseti hringir.) og ekkert af því hefur komið til baka. Ég bið um að fá að heyra aðeins álit hæstv. ráðherra á því líka.