144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

áætluð hækkun bóta og launa í ríkisfjármálaáætlun.

[15:31]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbjarti Hannessyni fyrir fyrirspurnina. Ég held hins vegar að það sé mikilvægt að hv. þingmaður haldi því sjálfur til haga sem fyrrverandi ráðherra velferðarmála að þegar við reiknuðum út síðast í samræmi við fyrirspurn sem barst frá þingmanni um þá fjármuni sem hafa farið inn í almannatryggingar, tókum þá tillit til allra þeirra breytinga sem voru gerðar á kerfinu á síðasta kjörtímabili, óháð því hvort við horfðum til verðlagsbreytinga eða launavísitölu, borguðum við meira inn í kerfið en sem því svaraði og jafnvel þó að við værum búin að draga frá fjölgunina. Við höfum aldrei borgað meira þegar kemur að almannatryggingum en við gerum akkúrat í dag.

Hins vegar hef ég sagt, og sagði líka í mínu fyrra svari, að það er náttúrlega afstaða þessarar ríkisstjórnar og þessa stjórnarmeirihluta að við ætlum okkur að halda áfram að bæta kjör allra landsmanna og þar undanskiljum við að sjálfsögðu ekki lífeyrisþega. Það má svo sem skilja, ekki síst í ljósi frétta dagsins í dag, að sú ríkisfjármálaáætlun sem var lögð fram af fjármála- og efnahagsráðherra mun taka verulegum breytingum. Það eru líka ákveðnir fyrirvarar í þeirri áætlun, m.a. sem snúa að öðrum málaflokkum hjá mér sem eru húsnæðismálin. Ég held að við þurfum einfaldlega að ræða hana í því ljósi.